HB Grandi hlaut útflutningsverðlaun forseta Íslands. Forstjórinn Vilhjálmur Vilhjálmsson tók við verðlaunum úr hendi Ólafs Ragnars Grímssonar við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. Þá hlaut Jóhann  Sigurðsson bóksali sérstaka heiðursviðurkenningu einstaklings fyrir að hafa aukið hróður Íslands á erlendri grund. Hann stóð fyrir þýðingu Íslendingasagnanna á ensku og hefur hann kynnt þær víða um heim.

Vilhjálmur sagðist í ræðu sinni stoltur af starfsfólki sínu og taldi HB Granda eiga verðlaunin fullverðskulduð.

Í dómnefnd verðlaunanna sátu að þessu sinni Björgólfur Jóhannsson frá Landsnefnd Alþjóða verslunarráðsins, Ingjaldur Hannibalsson frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Friðrik Pálsson frá Íslandsstofu, Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands og Örnólfur Thorsson frá embætti forseta Íslands. Íslandsstofa er ábyrgðar- og umsjónaraðili Útflutningsverðlaunanna.

Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1989 í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar útflutningsverslunar og gjaldeyrisöflunar.