Útvegsfyrirtækið HB Grandi hefur nú gengið frá lánsfjármögnun vegna smíði þriggja nýrra ísfiskstogara fyrir félagið, en þeir verða smíðaðir í Tyrklandi. Munu nýju skipin leysa þrjá togara af hólmi sem nú eru í rekstri og eiga þau að auka hagkvæmni með minni olíueyðslu, betri aflameðferð, auknu rekstraröryggi og minni viðhaldskostnaði.

Íslandsbanki og DNB Bank ASA munu lána HB Granda fyrir skipunum og auk þess endurfjármagna eldri lán. Alls er fjármögnunin 55 milljónir evra, eða um 7,8 milljarðar íslenskra króna. Verður dregið á fjárhæðina í þremur hlutum og lánstími hvers ádráttar verður 5 ár.

Hver ádráttur er að fjárhæð 18,33 milljóna evra og munu þeir eiga sér stað í nóvember 2016, maí 2017 og nóvember 2017, samhliða afhendingu hvers skips.

Lánssamningurinn ber breytilega vexti og eru núgildandi meðalvextir 2,4%.