*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 14. apríl 2011 11:02

HB Grandi greiðir 340 milljónir króna í arð

Vogun hf. og félag í eigu Ólafs Ólafssonar eiga samtals 73% í HB Granda. Arðurinn verður greiddur út um miðjan maí næstkomandi.

Ritstjórn
Ólafur Ólafsson, eigandi Kjalars, fær arðgreiðslu verði hún samþykkt á aðalfundi.
Haraldur Jónasson

Stjórn HB Granda ætlar að leggja til við aðalfund félagsins að greiddur verði 20% arður á hlut vegna ársins 2010. Samtals nemur það 339,6 milljónir króna. Verði arðgreiðslan samþykkt á aðalfundi 29. apríl næstkomandi mun arðurinn verða greiddur út 13. maí 2011. HB Grandi er skráð á íslenskan hlutabréfamarkað og fá þeir sem skráðir eru á hlutaskrá félagsins fyrir klukkan 9:00 þann 4. maí næstkomandi arðgreiðslu í samræmi við eign sína.

 Tveir hluthafar eiga 73% í HB Granda

Stærstu eigendur HB Granda eru Vogun hf. með 40,1% eignarhlut og Kjalar hf., félag í eigu Ólafs Ólafssonar, með 33% eignarhlut. Samtals fá þessir tveir aðilar því um 248 milljónir króna af arðgreiðslunni.

Eigandi Vogunar er Hvalur hf. sem er í eigu 97 aðila samkvæmt síðast ársreikningi. Stærstu eigendur Hvals eru Fiskveiðihlutafélagið Venus með 36% eignarhlut oh Ragnhildur Skeoch með 11% eignarhlut.

Fiskveiðihlutafélagið Venus er að mestu í eigu Kristjáns og Birnu Loftsbarna (eiga 21,5% hver) og Kristínar, Sigríðar og Árna Vilhjálmsbarna (eiga 12,5% hver). Aðrir hluthafar þess eiga samtals 20,5%.