Aðalfundur HB Granda samþykkti að greiða hluthöfum sínum um 679 milljónir í arð. Félagið hagnaðist um 6 milljarða á síðasta ári. Arðgreiðslan nemur því um 11,3% af hagnaði ársins, að því er kemur fram í skýrslu Árna Vilhjálmssonar, stjórnarformanns HB Granda til aðalfundar.

Sagði hann að tillaga um arðgreiðslu endurspeglaði áherslu á að greiða niður skuldir og þá um leið viðleitni til að vera sem best undir búin að standast afleiðingar hugsanlegra aðgerða stjórnvalda í málefnum sjávarútvegs.

Árni fjallaði einnig um áhrif auðlegðarskatts á hluthafa í fyrirtækinu. Tók hann sem dæmi mann sem í fyrra keypti hlut í HB Granda að nafnverði 1.000 kr. á gengi, sem var jafnt lokagengi ársins, þ.e. 12,6, en það er gengið, sem öllu ræður um skattstofninn. „Hann fær nú í vor 400 kr. arð; 20% arðsins fara strax í fjármagnstekjuskatt; það gera 80 kr. Svo ber honum að gjalda í áföngum hæst 2% auðlegðarskatt af metnu verðmæti hlutarins, þ.e. 12.600 kr.; það gerir 252 kr. Gjöldin verða þá samtals 332 kr. og eftir standa af arðgreiðslunni 68 kr., sem eru 17% af arðinum, en aðeins 0,54% í útgreidda ávöxtun af fjárfestingunni, sem hafði verið 12.600 kr. En hann þarf sem sagt ekki að borga með sér vegna þessa eignarhluta. Það er svo allt í óvissu um, hvað hann á eftir fá út úr þessari fjárfestingu sinni síðar meir.“