Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,21% í 1,7 milljarðs króna viðskiptum og stendur hún nú í 1.704,77 stigum. Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði einnig, eða um 0,13% í 6,2 milljarða viðskiptum og nam lokagildi hennar 1.352,63 stigum.

HB Grandi hækkaði mest, eða um 2,86% í 113 milljón króna viðskiptum og fæst hvert bréf félagsins nú á 32,35 krónur.

Mestu viðskiptin, sem og næst mesta hækkunin var á gengi bréfa Eimskipafélags Íslands, eða um 1,37% í 431 milljón króna viðskiptum. Er gengi bréfa félagsins nú 276,75 krónur. Önnur félög sem hækkuðu voru Hagar og Icelandair Group, en önnur félög lækkuðu eða stóðu í stað.

Eik fasteignafélag lækkaði svo mest í viðskiptum dagsins, eða um 2,19% í 110 milljón króna viðskiptum og nam lokagengi bréfanna 10,27 krónum.

Næst mest var lækkun bréfa Össurar, en í mjög litlum viðskiptum, en VÍS lækkaði jafnframt töluvert eða um 1,67% í 57 milljón króna viðskiptum. Fæst hvert bréf félagsins nú á 12,35 krónur.