Hagnaður HB Granda hf. á árinu 2010 nam 1,3 milljörðum króna, ef miðað er við meðalgengi krónunnar á árinu 2010. Í evrum talið nam hagnaðurinn 7,8 milljónum evra samanborið við 13,0 milljónir evra árið áður. Ársreikningur félagsins er í evrum.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 41,2 milljónir evra en var 32,0 milljónir evra árið 2009. Rekstrartekjur samstæðunnar voru 144,8 milljónir evra samanborið við 123,7 milljónir evra árið áður. HB Grandi birti uppgjör sitt fyrir síðasta ár í dag.

EBITDA var 28,5% af rekstrartekjum samanborið við 25,9% árið áður. Hærra hlutfall skýrist meðal annar af afkomu loðnuvertíðar, en engum aflaheimildum var úthlutað árið áður, segir í kynningu uppgjörsins. „Hins vegar varð minni veiði á kolmunna og norsk-íslenskri síld. Þá hækkuðu flest afurðaverð í evrum, að hluta til vegna veikingar evru gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Olíuverð hækkaði einnig verulega á milli ára.“

Að meðaltali störfuðu 670 starfsmenn hjá HB Granda á árinu 2010 en voru 622 árið 2009. Laun og launatengd gjöld námu samtals 7,8 milljörðum króna og hækkuðu frá 6,3 milljörðum króna árið áður.

Heildareignir félagsins í árslok námu 303,7 milljónum evra, þar af voru fastafjármunir 254 milljónir og veltufjármunir 49,7 milljónir evra. Eigið fé nam 141,3 milljónum og eiginfjárhlutfall 46,5%.

Ársreikningur HB Granda .