HB Grandi hagnaðist um 13,8 milljónir evra, jafnvirði um 2,1 milljarðs íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu til Kauphallarinnar .

Þar kemur fram að rekstrartekjur HB Granda hafi á tímabilinu numið 53,3 milljónum evra, en þær voru 41,9 milljónir evra á sama tíma á síðasta ári. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 21,4 milljónir evra eða 40,1% af rekstrartekjum, en var 9,2 milljónir evra eða 21,8% árið áður. Hækkun tekna og EBITDA skýrist að mestu vegna betri loðnuvertíðar, en móttekinn loðnuafli til vinnslu nam 67,9 þúsundum tonna, en var 21,7 þúsundir tonna í fyrra.

Heildareignir félagsins námu 393,2 milljónir evra í lok mars 2015. Þar af voru fastafjármunir 300,1 milljónir evra og veltufjármunir 93,1 milljónir evra.  Eigið fé nam 233,6 milljónir evra, eiginfjárhlutfall í lok mars var 59,4%, en var 59,7% í lok árs 2014. Heildarskuldir félagsins voru í marslok 159,6 milljónir evra.

Handbært fé frá rekstri nam 6,9 milljónum evra á tímabilinu, en nam 4,2 milljónum evra á sama tíma fyrra árs.  Nettó fjárfesting í rekstrarfjármunum nam 2,1 milljón evra og fjárfesting vegna nýrra skipa nam 9,1 milljón evra.