Sjávarútvegsfyrirtækið HB Grandi hagnaðist um 11,6 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi borið saman við 12,7 milljónir á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram nýbirtu í árshlutauppgjöri félagsins .

Rekstrartekjur HB Granda námu 62 milljónum evra á tímabilinu en voru 57,2 milljónir í fyrra. EBITDA nam 18,4 milljónum (20,3% af tekjum) en var 19,2 milljónir (26,3% af tekjum) í fyrra. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 3,7 milljónir, en voru neikvæð um 1,9 milljónir á sama tíma árið áður.  Áhrif hlutdeildarfélags voru jákvæð um 3,1 milljónir, en voru jákvæð um 3,0 milljónir árið áður.

Heildareignir námu 500,8 milljónum evra í lok september. Eigið fé nam tæplega 250 milljónum og var eiginfjárhlutfall 49,8% samanborið við 55,6% í lok árs 2016.

Handbært fé frá rekstri nam 13,2 milljónum á tímabilinu, en nam 14,5 milljónum á sama tíma fyrra árs. HB Grandi fjárfesti fyrir 41,6 milljónir evra.  Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 31,7 milljónir.  Handbært fé hækkaði því um 3,3 milljónir á tímabilinu og var í lok september 10,6 milljónir.

Á fyrstu níu mánuðum ársins hagnaðist HB Grandi um 17,3 milljónir evra (2,1 milljarð króna), en á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 25,2 milljónum evra.

Í skipastól félagsins voru í septemberlok níu skip.  Félagið hefur selt frystitogarann Þerney RE-1 og verður skipið afhent 30. nóvember.  Verið er að koma fyrir vinnslubúnaði í ísfiskstogarann Akurey AK-10 og gert er ráð fyrir að Viðey RE-50 komi til landsins fyrir jól.

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 var afli skipa félagsins 34 þúsund tonn af botnfiski og 88 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Fyrir birtingu árshlutauppgjörsins lækkaði gengi bréfa í HB Granda um 0,37% í 54 milljón króna viðskiptum.