Sjávarútvegsfyrirtækið HB Grandi hagnaðist um 24,8 milljónir evra árið 2017, eða því sem nemur 3,1 milljarði króna, samanborið við 26,2 milljónir evra árið 2016. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir síðasta ár.

Stjórn félagins leggur til að greiddur verði út arður að fjárhæð 1,3 milljarðar króna til hluthafa vegna síðasta rekstrarárs.

HB Grandi seldi vörur fyrir 217,3 milljónir evra á síðasta ári og jókst salan um 8% milli ára. Kostnaðarverð seldra vara jókst þó meira, eða 18,1%, og nam 176,4 milljónum evra. EBITDA félagsins nam 35,7 milljónum evra (16,4% af rekstrartekjum) en var 44,3 milljónir (22% af tekjum) árið áður.

HB Grandi gerði út 8 fiskiskip í árslok. Árið 2017 var afli skipa félagsins 44 þúsund tonn af botnfiski og 109 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Meðalfjöldi ársverka árið 2017 var 839 en var 859 árið 2016. Laun og launatengd gjöld námu samtals 73,9 milljónum samanborið við 70 milljónir árið áður.

Heildareignir HB Granda námu 498,1 milljón evra í árslok 2017. Eiginfjárhlutfall var 52% en var 56% í lok árs 2016.

Handbært fé frá rekstri nam 28,9 milljónum evra en var 25 milljónir árið áður. Fjárfestingar námu 46,1 milljónum og voru fjármögnunarhreyfingar jákvæðar um 27,5 milljónir. Handbært fé hækkaði því um 10,3 milljónir og var 17,6 milljónir evra í árslok.

Verkfall sjómanna setti verulegan svip á rekstur félagsins í upphafi árs, samkvæmt tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar, en það stóð yfir frá miðjum desember 2016 til 20. febrúar 2017. Í maí var tekin ákvörðun um að leggja af botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi.  Botnfiskvinnsla á Akranesi sameinaðist botnfiskvinnslu félagsins í Reykjavík þann 1. september 2017.

Þann 2. júní 2017 var skrifað undir samning vegna smíði á 81,30 metra löngum og 17,00 metra breiðum frystitogara  við spænsku skipasmíðastöðina Astilleros Armon Gijon.  Afhending togarans er áætluð um mitt ár 2019. Félagið seldi Þerney RE-1 á árinu og var hún afhent nýjum eigendum í desember 2017.  Við söluna fækkaði skipum félagsins í rekstri um eitt. Í árslok keypti félagið 33% eignarhlut í fiskþurrkunarfyrirtækinu Laugafiski ehf. (áður Háteigur ehf.).

Fjórði ársfjórðungur

Rekstrartekjur HB Granda námu 58,4 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi á móti 48,7 milljónum á sama tímabili árið 2016. EBITDA nam 3,4 milljónum en nam 4,1 milljón á sama tímabili 2016. Hagnaður ársfjórðungsins var 7,5 milljónir en var 1,1 milljón árið áður.