HB Grandi hefur samið um smíði tveggja skipa til veiða á uppsjávarfiski og verða þau smíðuð í skipasmíðastöðinni Celiktrans Denis Insaat í Tuzla í Tyrklandi. Kaupverðið er 44,5 milljónir evra eða um 7,2 milljarðar króna.

Fyrra skipið verður afhent í byrjun árs 2015 og það seinna um haustið sama ár. Fram kemur í tilkynningu frá HB Granda að samningarnir séu gerðir með fyrirvara um ábyrgðir af beggja hálfu.

Fyrra skipið á að leysa af hólmi tvö 53 ára gömul skip, þau Víking og Lundey en ákvörðun um frekari rekstur Faxa og Ingunnar verður tekin þegar nær dregur seinni afhendingunni. Með nýjum skipum næst betri meðferð afla, að sögn HB Granda.

Skipin eru 80 metra löng og 17 metra breið.  Þau eru eru búin öflugri kæligetu eða 2 x 1.300.000 kcal/klst. fyrir 12 kælilestar sem eru alls 2.900 rúmmetrar. Aðalvélin er 4.600 kw.

HB Grandi hagnaðist um 2,6 milljarða króna á fyrri hluta árs og námu tekjur 16,1 milljarði króna í tekjur. Eignir félagsins námu 48,7 milljörðum króna í lok júní og var eigið fé 27,9 milljarðar króna.