Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,21% í 1,6 milljarða viðskiptum dagsins og stendur hún nú í 1.749,62 stigum.

Aðalvísitala Skuldabréfa hækkaði einnig, eða um 0,07% í 4,6 milljarða viðskiptum og náði hún 1.266,07 stigum.

Skeljungur, Icelandair og Reginn lækkuðu einnig

Bréf HB Granda lækkuðu mest, eða um 5,01% í 214 milljón króna viðskiptum, en eins og fram hefur komið í fréttum Viðskiptablaðsins hyggst félagið segja upp hluta af starfsfólki sínu í landvinnslu. Er gengi bréfa félagsins nú 32,25 krónur.

Einnig lækkuðu bréf Skeljungs, Icelandair og Regins, en í öllum tilvikum í óverulegum viðskiptum og stendur gengi bréfanna nú í:

  • Icelandair - 14,40
  • Skeljungur - 6,20
  • Reginn - 27,80

Gengi bréfa Össurar hækkuðu um heil 10,50% í 12 milljón króna viðskiptum og fást bréf félagsins nú á 400,00 krónur. Mest viðskipti voru með bréf Haga, eða fyrir 694 milljónir króna og hækkaði gengi bréfanna um 0,99% í 45,95 krónur.

Næst mest viðskipti voru svo með bréf Reita fasteignafélags, eða fyrir 236 milljónir króna og hækkaði verð bréfanna upp í 97,90 krónur eða um 1,35% í viðskiptum dagsins.