Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega í viðskiptum dagsins eða um 0,18%. Hún stendur nú í 1.860,10 stigum. Eftir rólegan dag í gær, þar sem heildarveltan í Kauphöllinni nam 3,5 milljörðum króna, tóku viðskiptin kipp í dag. Heildarveltan eftir daginn nemur tæpum 9,4 milljörðum. Tæplega 1.375 milljóna króna velta var með hlutabréf og tæplega 8 milljarða velta var með skuldabréf.

Mest hækkuðu bréf Össurar eða 5,32% en í aðeins 2,4 milljóna króna viðskiptum. Bréf í Reitum hækkuðu um 0,84% í 32 milljóna viðskiptum og bréf í N1 um 0,78% í 56 milljóna viðskiptum. Mest lækkaði gengi HB Granda, eða um 2,56% í 167 milljóna króna viðskiptum. Í gær lækkaði HB Grandi um 1,32%. Gengi bréfa í Eik lækkaði um 0,75% í 161 milljóna viðskiptum. Mest viðskipti voru með bréf í Högum, eða 206 milljóna viðskipti. Gengið bréfa í Högum stóð í stað.

Á skuldabréfamarkaði voru mest viðskipti með óvertryggð bréf eða um 6,7 milljarða viðskipti.