HB Grandi hefur nú gengið frá lánsfjármögnun tveggja uppsjávarskipa ásamt endurfjármögnun á eldri langtímalánum við Arion banka hf. og DNB Bank ASA. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Áður hefur verið greint frá samningum HB Granda við tyrknesku skipasmíðastöðina Celiktrans Deniz Insaat um smíði skipanna sem áætlað er að verði afhent á árinu 2015. Munu hin nýju skip bera heitin Venus NS 150 og Víkingur AK 100.

Fjármögnunin er alls að fjárhæð 77 milljóna evra sem dregið verður á í þremur hlutum og mun lánstími hvers ádráttar vera 5 ár. Fjárhæðin jafngildir um 11,5 milljörðum íslenskra króna. Lánssamningurinn ber breytilega vexti og eru núgildandi meðalvextir 2,6%.