HB Grandi er metinn á minnst 48,5 milljarða króna samkvæmt útboðslýsingu sem var gefin út í dag. Í lýsingunni kemur fram að heildarfjöldi útgefinna hluta nemur 1.822.228.000, en þar af á félagið eigin hluti sem nema 0,47% af heildarfjölda hlutanna. Hlutirnir verða seldir í tveimur tilboðsbókum í almennu útboði en í báðum bókum er lágmarksverð 26,6 krónur á hlut. Það þýðir að verðmæti félagsins er að lágmarki 48,5 milljarðar.

Í boði eru að lágmarki 492.001.560 hlutir og er heildarverðmæti hlutarins sem er í boði því 13,1 milljarður króna. Heimilt er að stækka útboðið í allt að 583.112.960 hluti og yrði þá verðmæti selds hlutar 15,5 milljarðar.