Hlutabréf HB Granda hafa rokið upp í kauphöllinni það sem af er degi. Gengi hlutabréfa félagsins hafa hækkað um 7,76% í 359 milljón króna viðskiptum þegar þetta er ritað.

Samkvæmt viðmælendum Viðskiptablaðsins á markaði tengist hækkunin annars vegar því að heildarafli Íslands á loðnu verður alls 196.075 tonn á þessari vertíð. Fyrr í vetur hafði íslenskum skipum verið úthlutað ríflega 12 þúsund tonnum þannig að aukningin er rúmlega sextánföld. Áætluð heildarúthlutun til HB Granda fyrir þessa vertið er um 33 þúsund tonn.

Hins vegar tengist hækkunin líklega aukinni bjartsýni um að rofa fer til í kjaradeilu sjómanna og útgerðar í dag.