Undirbúningur stendur yfir á því að hlutabréf HB Granda verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Miðað er við að viðskipti geti þar hafist í vor.

Í tilkynningu frá HB Granda er rifjað upp að 12. nóvember síðastliðinn hafi verið tilkynnt að til standi að afskrá félagið af First North markaðstorgi Kauphallarinnar. Nú hafi verið tekin ákvörðun um að óska ekki eftir framangreindri afskráningu og verður því áfram hægt að eiga viðskipti með hluti í félaginu fram að töku þeirra til viðskipta á Aðalmarkaðnum.

Viðskiptablaðið fjallaði í síðasta mánuði ítarlega um skráningu HB Granda á Aðalmarkað Kauphallarinnar. Í umfjöllun blaðsins sagði m.a. að þriðjungshlutur í félaginu verði boðinn út til fjárfesta. Þar sagði að Arion banki eignaðist um þriðjungshlut í HB Granda í kjölfar skuldauppgjörs Kjalar, félags Ólafs Ólafssonar, fyrir rúmum tveimur árum. Hann á nú 31% hlut í kjölfar nýyfirstaðinnar hlutafjáraukningar. Við skráningu HB Granda á markað mun bankinn svo eiga eftir 6-11% hlut. Hversu stór hann verður fer eftir því hvernig útboðið fer.