Héðinn Þór Gunnarsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Viðskiptagreindar hjá Sjóvá. Héðinn Þór hefur starfað sem sérfræðingur í hagdeild hjá Sjóvá frá byrjun árs 2018 og hefur verið leiðandi í þróun og nýtingu vöruhúss gagna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjóvá.

Áður starfaði Héðinn hjá Mannvit verkfræðistofu sem ráðgjafi á sviði stjórnkerfa og upplýsingatækni. Þar leiddi hann ýmis verkefni á sviði gagnasöfnunnar, úrvinnslu og greininga sem og öðrum fjölbreyttum verkefnum. Héðinn er með BS-próf í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands.

Viðskiptagreind ber ábyrgð á þróun og nýtingu vöruhúss gagna og þjónustar aðrar deildir innan fyrirtækisins meðal annars með því að færa gögnin nær notendum og tryggja að starfsmenn hafi þær upplýsingar sem þarf til að taka ákvarðanir á hverjum tíma auk þess að styðja við aukna sjálfvirkni innan fyrirtækisins með nýtingu gagna.

„Það eru spennandi tímar framundan með auknu aðgengi að öflugum lausnum í vélnámi og gervigreind. Þar liggja gríðarleg tækifæri og er áskorun að velja réttar lausnir sem aðstoða við ákvarðanatöku og ýta undir hraðari afgreiðslur mála, sem bætir þjónustu og eykur um leið ánægju viðskiptavina okkar," segir Héðinn Þór í tilkynningunni.