Sænska dagblaðið, Svenska Dagbladet, fjallaði síðastliðin þriðjudag um íslensku fasteignafélögin Keops, sem er í meirihlutaeigu Fons, og Stoðir, dótturfélag Baugs Group, og um tildrög þess að Stoðir buðu í allt hlutafé Keops í síðustu viku. Um þetta er fjallað í Viðskiptablaðinu í dag.

Í greininni er haft eftir ónafngreindum heimildum að danskur banki hafi nýlega neitað að fjármagna kaup Fons á þriðjungshlut í Keops og innkallað lán sín til fyrirtækisins. Því hafi Stoðir verið kallaðar til og ástæða yfirtökutilboðsins hafi því í raun verið að bjarga Fons frá vandræðum.

Þessa lýsingu á atburðarásinni segir Pálmi Haraldsson vera kolranga í samtali við Viðskiptablaðið. "Fyrir það fyrsta þá komu danskir bankar hvergi við sögu við fjármögnun á kaupum Fons á þriðjungshlutnum í Keops. Þá hef ég aldrei tekið lán í Danmörku né Svíþjóð þannig að danskir bankar geta ekki innkallað neinar skuldir hjá mér," segir Pálmi, sem segist hafa talað við blaðamann Svenska Dagbladet og leiðrétt þennan misskilning. Kaupin hafi verið fjármögnuð á Íslandi og veðin á bakvið lánin hafi verið meiri og betri en gengur og gerist í slíkum viðskiptum.