Með auknum sýnileika á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum seinustu ár er Björn Stefánsson líklega orðinn þekktari í hugum margra sem leikari en trommari. Björn hefur þó aldeilis ekki sagt skilið við slagverkið. „Þó að ég sé starfandi leikari er ómögulegt annað en að tromma líka,“ segir Bjössi með áherslu.

„Ég er og verð trommari, það er er svo samofið sjálfsmynd minni og eðli. Ég fæ mikla útrás við trommurnar, sérstaklega að spila þungarokk, ég lem fastar, hugsa ekkert og gleymi mér. Það nærir sálina, hversu dramatískt sem það hljómar.“

Bjössi hefur frá upphafi fengið ótvírætt lof fyrir hrynþungan og taktvissan trumbuslátt. Árið 2006 völdu lesendur breska rokktímaritsins Metal Hammer hann t.d. sem fjórða besta trommara í heimi, sjónarmun á eftir heimsþekktum trommurum á borð við Nico McBrain úr Iron Maiden og Lars Ulrich í Metallica.

„Mínus spilaði stanslaust á árunum 2001-2004 og okkar helstu bækistöðvar voru í Englandi, þar sem blöðin tóku miklu ástfóstri við þessa hljómsveit. Þetta var tímarit sem ég hafði lesið síðan ég var unglingur og allt í einu var maður kominn á lista með mönnum sem ég leit upp til. En ég var farinn að vinna í Ísaksskóla og nýbúinn að eignast barn þegar ég frétti af þessu og því á talsvert öðrum stað en ég hafði áður verið. Og það sem meira var að þeir fóru vitlaust með nafnið mitt, kölluðu mig Frosta, sem var gítarleikarinn í hljómsveitinni. Ég gat því aldrei notið þessa heiðurs til fulls,“ segir Bjössi og brosir breitt.

Missti föður sinn tólf ára gamall

Trumbuslátturinn er óneitanlega í blóðinu. Faðir Bjössa var Stefán Jóhannsson sem trommaði með bítlasveitinni Dátum á sínum tíma eins og glöggt má heyra í laginu Gvendur á Eyrinni sem enn hljómar í útvarpi. Stefán trommaði síðan í hálfan annan áratug í hljómsveit Ragga Bjarna og með Sumargleðinni. Hann lést síðan fyrir aldur fram, aðeins 46 ára, þegar Bjössi var á barnsaldri.

„Þegar pabbi dó var ég tólf ára, á þessum erfiða umbrotaaldri á milli barns og unglings, að byrja að staulast um í heiminum, og þegar hann kveður var það eina sem komst að í kollinum á mér að feta í hans fótspor,“ segir Bjössi íhugull. „Ég hef oft hugsað um að ég hefði getað farið að spila á gítar eða eitthvert annað hljóðfæri en mér fannst ég komast nær honum með því að tromma.

Pabbi kenndi mér ekki sjálfur en gaf mér þó mína fyrstu trommutösku og kjuða því að ég var farinn að sýna trommunum áhuga, en hann ýtti mér ekki út á þessa braut. Ég erfði hins vegar trommusettið hans og byrjaði þá að tromma eins og vindurinn. Það er svo merkilegt með pabba að hvert sem leiðin liggur verða á veginum einstaklingar sem minna mann á pabba með einhverjum hætti.

Og það er fyndið hvernig sagan bítur í skottið á sér; pabbi spilaði með Ragga Bjarna í fimmtán ár og núna hef ég trommað margsinnis með Ragga á þessu ári. Lífið er stundum hreint út sagt ótrúlegt. Mér finnst gott að hugsa til þess að pabbi fylgist með og fólk sé enn þá að minnast á hann þótt það sé aldarfjórðungur síðan hann lést. Það situr svakalega í mér að þegar hann dó hugsaði ég með mér að þetta væri maður sem vildi alls ekki deyja. Það var rosalega erfitt að sjá tólf ára gamall.“

Sameinaðir í þunglyndi og reiði

Mínus var óþreytandi við spilamennsku frá stofnun og draumurinn um að slá í gegn á erlendum vettvangi knúði meðlimi áfram árum saman upp úr aldamótum. „Hljómsveitin var í fyrsta, öðru og þriðja sæti í lífinu en kærustur og aðrar skyldur komu þar á eftir,“ segir Bjössi.

„Við höfðum svo sem ekki miklum skyldum að gegna; það eina sem við þurftum virkilega að gera var að mæta á svið á tiltölulega réttum tíma og koma músíkinni skikkanlega frá okkur. Það gerðum við iðulega, en þess á milli vöknuðum við í rútunni, lifðum á McDonald’s-fæði í Bretlandi og síðan var bara spilað endalaust. Við vorum pottþétt vannærðir og þunglyndir. Við leyfðum okkur líka allt, án þess að ég fari nánar út í þá sálma.

En það sem batt okkur saman og gerðum okkur að því sem við vorum er að við fundum okkur allir í einhvers konar þunglyndi og reiði. Ég vil meina að margar hljómsveitaræfingar okkar og tónleikar hafi verið nokkurs konar þerapía, maður tók á vandamálunum með því að spila eins og enginn væri morgundagurinn.“

Í kringum 2005 hóf hann hins vegar að endurskoða hvað skipti mestu máli.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .