Ein meginástæðan fyrir þátttöku Símans á sjónvarpsmarkaði og áformum um uppbyggingu efnisveitu eru þær að hefðbundin fjarskiptaþjónusta, sem staðið hefur undir kostnaði við uppbyggingu fjarskiptaneta um áraraðir, á undir högg að sækja. Þetta kom fram í ræðu Brynjólfs Bjarnasonar, forstjóra Símans, á aðalfundi fyrirtækisins í gær.

"Síminn hefur því horft til þess að finna ný tækifæri ? nýja tegund fjarskiptaþjónustu sem taka mætti við og standa undir áframhaldandi framþróun fjarskiptanetsins um allt land. En þess má geta að í greinargerð með núgildandi fjarskiptalögum nr. 81/2003 er ekki lengur gerður greinarmunur á fjarskiptanetum og þjónustu eftir því hvort um er að ræða útvarps (sjónvarps) þjónustu eða aðra fjarskiptaþjónustu.
Líkt og mörg önnur fjarskiptafyrirtæki víða um heim hefur Síminn séð tækifæri í að nýta stafræna og gagnvirka fjarskiptatækni til að bjóða endurbætta sjónvarps- og afþreyingarþjónustu," sagði Brynjólfur.

Brynjólfur benti á að kröfur neytenda breytast hins vegar hratt og Síminn þurfi því sífellt að leita nýrra leiða til að uppfylla þarfir þeirra, í harðri samkeppni á fjarskiptamarkaði.