Íslenskum samkeppnisyfirvöldum er heimilt að hlutast til um afgreiðslutíma sem flugfélög hafa þegar fengið úthlutað á Keflavíkurflugvelli, séu skilyrði samkeppnislaga um slíka íhlutun uppfyllt. Þetta er niðurstaða ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins sem var kveðið upp í Lúxemborg gær.

Hins vegar verður ekki hreyft við úthlutun samræmingarstjóra eða honum fyrirskipað á nokkurn hátt um hvernig úthlutun skuli háttað. Að sama skapi er tilgangslaust að gera slíkar kröfur til rekstraraðila flugvallarins, Isavia, enda hefur hann enga aðkomu að úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. Málið mun nú halda áfram fyrir héraðsdómi.

Ekki haldið fram að fyrirkomulagið sé skaðlegt samkeppni

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, býst við að dómstólar muni væntanlega taka undir sjónarmið félagsins að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hafi verið ólögmæt eins og áfrýjunarnefnd samkeppnismála og EFTA-dómstóllinn hafa staðfest. „Því er ekki haldið fram í niðurstöðu EFTA-dómstólsins að það fyrirkomulag sem viðhaft er við úthlutun afgreiðslutíma hafi skaðleg áhrif á samkeppni, enda er þetta sama fyrirkomulag og er viðhaft alls staðar annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.“

Wow air ánægt með álitið

Í svari við skriflegri fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir Wow air að álit EFTA-dómstóls styrki málatilbúnað sinn fyrir dómstólum. „Niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála var að rétt væri að beina þessum tilmælum til samræmingarstjóra. Samkvæmt EFTA-dómstólnum er það augljóslega rangt, eins og við héldum alltaf fram. Við munum því klára dómsmálið til að fá þá ákvörðun ógilta,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow Air.

„Þetta er nákvæmlega sú niðurstaða sem við vonuðumt eftir. Það er ljóst að samkvæmt þessu hefur Samkeppniseftirlitið meiri heimildir en áður var talið. Nú beinast þessi mál líka ekki að Isavia sem var mjög óheppilegt en Isavia er mikilvægur og góður samstarfsaðili okkar,“ bætir hún við. Hún segir niðurstöðu EFTA-dómstólsins ekki koma sér á óvart.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .