Skattrannsóknarstjóri hefur vísað fjórtán málum til sérstaks saksóknara þar sem grunur leikur á um stórfelld undanskot frá skatti í tengslum við uppgjör afleiðuviðskipta. Ákært hefur verið í að minnsta kosti sex slíkum málum og hafa dómar fallið í tveimur þeirra.

Eiríkur Sigurðsson, kenndur við verslunina Víði, og Ragnar Þórisson, stofnandiBoreas Capital, hafa báðir verið dæmdir fyrir slík brot, en bæði málin snerust um uppgjör á skiptasamningum um hlutabréf í skattframtölum fyrir árið 2007. Í janúar 2008 breyttust lögin þannig að afleiðusamninga, þar sem undirliggjandi verðmæti eru aðeins hlutabréf, mætti „netta út“. Þ.e. að tap á einum slíkum samningi mætti færa á móti hagnaði í öðrum þeirra. Þannig höfðu bæði Ragnar og Eiríkur gert upp sína samninga, en það var ólöglegt fyrir skattaárið 2007. Breytti engu fyrir niðurstöðu héraðsdóms þótt lögunum hefði verið breytt.

Verði frumvarp fjármálaráðherra nú samþykkt verður heimilt að netta út alla afleiðusamninga aðra en vaxtaskiptasamninga. Í stað þess að teljast vaxtatekjur mun hagnaður af slíkum samningum falla undir söluhagnað eigna og skattstofninn verður hreinn hagnaður af uppgjöri afleiðusamninganna, en ekki vergar tekjur af hverjum samningi fyrir sig. Þetta þýðir að ef lögin hefðu verið með þessum hætti þegar sexmenningarnir gerðu upp sína samninga og skiluðu skattframtölum sínum þá hefði ekki verið ákært í málum þeirra.

Auk þeirra Ragnars og Eiríks hafa Gunnlaugur Briem, Jón Ingi Gíslason, Ingvar Vilhjálmsson og Bjarni Ármannsson verið ákærðir fyrir að hafa talið rangt fram til skatts vegna uppgjöra á gjaldmiðlaskiptasamningum, en halda ber til haga að í máli Bjarna er ákært fyrir fleiri liði en bara skattgreiðslu vegna skiptasamninganna. Verði þeir dæmdir sekir verða þeir því að öllum líkindum dæmdir fyrir nokkuð sem ekki verður refsivert þegar dómurinn fellur, rétt eins og í tilvikum Ragnars og Eiríks.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .