Kristján Arason, fyrrverandi framkvæmdastjóri einkabankaþjónustu Kaupþings, fékk greiddar 34 milljónir í arð vegna hlutabréfa í Kaupþingi daginn áður en samþykkt var að færa allar skuldir hans og hlutabréf yfir í eignarhaldsfélagið 7 Hægri. Aðalmeðferð stendur nú yfir í máli slitastjórnar Kaupþings gegn honum í Héraðsdómi Reykjaness en þar er hann krafinn um að endurgreiða rúmlega 530 milljónir króna vegna lána sem hann fékk hjá bankanum til kaupa á hlutabréfum. Fram kemur um málið í Fréttablaðinu í dag að Kristján hafi óskað eftir því árið 2007 við Ingólf Helgason, þáverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, að færa bæði skuldir sínar og hlutabréf, tæplega 100 þúsund hluti í Kaupþingi, yfir á einkahlutafélagið. Dráttur varð á yfirfærslunni og að lokum leitaði Kristján til Hreiðars Más Sigurðssonar, sem var forstjóri Kaupþings-samstæðunnar, á þeim tíma. Hann féllst á gjörninginn í janúar 2008.

Blaðið segir að fram hafi komið að Kristján hagnaðist um 100 milljónir króna á hlutabréfunum eftir að hann hafði fært þau yfir á einkahlutafélagið, samkvæmt málflutningi slitastjórnarinnar. Hlutabréfin voru trygging bankans fyrir lánum til Kristján. Þau urðu verðlaus þegar bankinn fór í þrot í október 2008. Félag Kristjáns var svo úrskurðað gjaldþrota árið 2010. Eignir voru engar í þrotabúinu en skuldir upp á rúma tvo milljarða króna.

Í Fréttablaðinu segir að lögmaður Kristjáns hafni því að Kristján hafi hagnast með ólögmætum hætti á verðbréfaeigninni. Hann hefði hins vegar getað hagnast gífurlega hefði hann selt bréfin.