*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Innlent 12. janúar 2019 15:04

Hefði komið sér vel í hruninu

Fjármálaráðherra segir Þjóðarsjóð ekki ætlað að jafna sveiflur í hagkerfinu en hann hjálpi til á skuldabréfamarkaði.

Höskuldur Marselíusarson
Bjarni Benediktsson er fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Eva Björk Ægisdóttir

Stofnun Þjóðarssjóðs hefur verið í undirbúningi í fjármálaráðuneytinu frá stofnun starfshóps um málið árið 2015, en hlutverk, sem og nafngift sjóðsins hefur tekið nokkrum breytingum síðan þá. Fjármálaráðherra segir sjóðinn ekki ætlaðan til fjárfestinga innanlands líkt og talað er um í stjórnarsáttmála eða til sveiflujöfnunar eins og talað var um í upphafi.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði í byrjun síðasta mánaðar fram frumvarp á Alþingi um stofnun Þjóðarsjóðs.  Við undirbúning málsins, sem nær aftur til ársins 2015, hefur verið talað um allt frá stöðugleikasjóði til hamfarasjóðs.

„Já, við höfum nefnt hann ýmsum nöfnum, en við enduðum með þetta hugtak þjóðarsjóðinn, því það er sú hugsun sem er að baki,“ segir Bjarni sem segir skýrt í frumvarpinu að sjóðnum sé ekki ætlað að vera notaður til sveiflujöfnunar eins og til að mynda Ragnar Árnason hagfræðiprófessor gagnrýndi í Viðskiptablaðinu fyrir ári.

„Við veltum því fyrir okkur en komumst að þeirri niðurstöðu að nær væri að leggja áherslu á lága skuldastöðu, enda er allt okkar efnahagskerfi í raun byggt upp til að geta tekist á við efnahagssveiflur. Við sjáum það í lögum um opinber fjármál, þar sem gert er ráð fyrir að ríkið geti verið rekið með halla við þær aðstæður sem og hvernig tekjuskatts- og fyrirtækjaskattskerfið okkar er byggt upp. Auk þess er ríkið með atvinnuleysistryggingar og síðan sjálfstæða peningastefnu þar ofan á svo við sjáum ekki þörf á því að stofna sjóð til almennrar sveiflujöfnunar.“

Bjarni nefnir auk varasjóðs við meiri háttar áföll að hlutverk sjóðsins sé öðrum þræði að bæta og verja lánskjör ríkisins og ríkisfjármálin, sem og að sjóðurinn geti komið að gagni við mikilvægt hlutverk ríkisins á skuldabréfamarkaði. Það sé sérstaklega mikilvægt nú þegar skuldahlutfall hins opinbera nálgist að vera undir 30% skuldareglumörkunum sem skilgreind eru í lögum um opinber fjármál.

„Það markmið er að nást á næsta ári og bendir ekkert til annars en að skuldirnar muni halda áfram að lækka á komandi árum. Ríkið sjálft liggur þar einhvers staðar í kringum 25-26 prósentustig af þeirri tölu og stefnir hlutfall ríkisins á næstu árum í að verða 23%. Þannig erum við að nálgast það að vera komin í neðri mörk nauðsynlegra ríkisskulda til að halda úti þeim lágmarksskuldabréfaflokkum sem þurfa að vera ef ríkið ætli að vera leiðandi á skuldabréfamarkaði og myndi nauðsynlegan vaxtafót fyrir markaðinn,“ segir Bjarni.

„Þannig virka einfaldlega skuldabréfamarkaðirnir, ef ríkið leikur sitt hlutverk og er leiðandi og notar lánshæfi sitt til að sýna fram á bestu mögulegu kjör fyrir ríkið, þá hefur það mikil trúverðugleikaáhrif til góðs fyrir aðra. Þegar ríkið gaf út skuldabréf í evrum fyrir ári síðan þá voru vaxtakjörin hálft prósent, sem hafði strax mjög jákvæð áhrif fyrir allt fjármálakerfið á Íslandi. Þetta erum við margoft búin að sjá, til dæmis í skuldabréfaútgáfum fyrir Landsvirkjun og núna síðast þegar bankarnir gáfu út skuldabréf.“

Í ytri mörkum ríkisumsvifa

Bjarni segir þetta mikinn viðsnúning frá árunum eftir hrun þegar gott hefði verið að geta gengið að slíkum sjóði. „Það hefði sparað mjög mikinn samfélagslegan skaða, það er óhætt að segja það enda lenti ríkissjóður þá í þeirri hrikalegu stöðu að þurfa að taka erlent lán með 5,5% vöxtum, ofan á að vera að fjármagna sig mjög dýrt sömuleiðis innanlands. Það var einungis nýlega, nú tíu árum seinna, sem við losnuðum undan þeim byrðum sem þau lán voru, og gæti svona sjóður því til dæmis gagnast til að verja lánshæfi ríkisins þegar einhver meiri háttar áföll verða,“ segir Bjarni sem segist þó hafa skilning á þeim sjónarmiðum að óþarfi sé að byggja upp varasjóði.

„Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það að byggja upp varasjóð sé til marks um varfærni, skynsemi og ábyrgð í ríkisfjármálum. Þarna væri um að ræða sjóð sem myndi eignfærast hjá ríkinu og þannig stórlega auka lánshæfi þess og sýna fram á það að íslenska ríkið er ekki bara með vel fjármagnað lífeyrissjóðakerfi og lága skuldastöðu, heldur líka sjóð sem hægt er að grípa til ef einhver ytri áföll verða, sem við höfum langa sögu af. Bæði vegna meiri háttar náttúruhamfara, sem og vegna alvarlegra ytri atvika sem erfitt er að spá fyrir um. Það verður ekki fyrr en á reynir sem menn munu kunna að meta það að hafa lagt til hliðar til slíkra atburða.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is