*

laugardagur, 17. ágúst 2019
Innlent 30. júní 2018 12:31

Hefði vafalítið notið trausts áfram

Gylfi Arnbjörnsson segir stjórnmálin og kjararáð bera höfuðábyrgð á stöðunni á vinnumarkaði. Hann segist ekki herskár og að gagnrýni á hans persónu hafi fengið hann til að íhuga stöðu sína fyrir tveimur árum.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í embætti á þingi ASÍ í október. Gylfi hefur verið viðloðandi stéttarfélögin í rétt tæp þrjátíu ár. „Ég tók við af Grétari Þorsteinssyni og hef á því ári sem þing er látið vita fyrir sumarleyfi hver mín ætlun sé,“ segir Gylfi, en ASÍ þingar annað hvert ár.

„Það er bæði til að gera baklandinu grein fyrir því hvort ég vilji halda áfram, því maður á auðvitað ekki svona embætti heldur er kosið á tveggja ára fresti. Ég hef legið svolítið yfir þessari ákvörðun í vetur og það er engin launung á því að það hvarflaði að mér þegar ég var kosinn fyrir tveimur árum að ég hefði verið hugsi yfir því. Mér fannst margt af þeirri gagnrýni sem beinist að mér vera orðin fullrætin. Það eru takmörk hversu lengi maður getur sætt sig við þetta, bæði gagnvart sjálfum sér og fjölskyldu.“ Gylfi tók hins vegar þá ákvörðun fyrir tveimur árum að stórum verkefnum sem hann vildi helga krafta sína væri ólokið.

„Bjarg var þá í undirbúningi og setning laganna um almennar íbúðir nýsamþykkt. Mér fannst líka samningamódelið í kringum SALEK vera áhugavert og vildi vinna að því áfram. Það var á dagskrá þings ASÍ, sem var ekki á móti því heldur taldi það þurfa meiri umræðu í aðildarfélögunum. En þegar maður ákveður svona verður maður að gefa hreyfingunni ráðrúm til að vinna úr þeirri stöðu. Svona nokkuð getur ekki bara verið tilkynnt á þinginu sjálfu. Þetta er svo stór og að mínu viti mikilvæg hreyfing – miklu stærri en við sem skipum hana – og því mikilvægt að það sé vandaður undirbúningur að þessu. Þá geta menn mátað sig í þetta embætti án þess að sjá fram á mótframboð gegn mér. Það er erfitt að fella sitjandi forseta. Ég er ekkert í efa um það að ef ég byði mig fram þá nyti ég áfram trausts, þrátt fyrir yfirlýsingar formanna stærstu félaganna,“ segir Gylfi, og á þar við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar.

Snýst um persónur en ekki málefni

„Þau ráða ekki hugarfari þingfulltrúa sinna. Ég hef unnið svo lengi með trúnaðarmönnum og baklandi þessara félaga, þannig að ég veit nokkurn veginn hvernig það liggur. En mér ber að meta þetta ekki bara út frá þessari persónulegu stöðu heldur líka hreyfingunni. Það er eitt að vinna slag en annað að vinna frið. Það er engin launung á því að þessi persónulegi þáttur, rætni, hefur vaxið. Það snýst um mína persónu,“ segir Gylfi. Hann rifjar upp þegar hann var ásamt Elínu Björgu Jónsdóttur, formanni BSRB, sem hefur einnig ákveðið að stíga til hliðar, með Ragnari og Sólveigu á 1. maí.

„Við áttum ágætis klukkutíma samtal um stefnur og strauma. Ég varð ekki var við, hvorki þar né annars staðar, að það væri málefnalegur ágreiningur um það sem snýr að stjórnvöldum – enda finnast mér þær hugmyndir og þau úrræði sem þau hafa lagt fram vera í takt við grundvallarhugmyndir Alþýðusambandsins,“ segir Gylfi og á þar við þær breytingar sem hafa verið lagðar til á skatt-, bóta- og velferðarkerfum til hagsbóta fyrir þá sem eru á lægstum launum. „Um þetta er ekki ágreiningur í hreyfingunni. Einhvern veginn varð það samt þannig að þau vilja ekki taka samtal á vettvangi Alþýðusambandsins í undirbúningi samningaviðræðna. Þar beinist gagnrýnin að mér persónulega. Það verður alltaf grunnt samtal við þetta fólk, ég verð að viðurkenna það. Og það er auðvitað bara áhyggjuefni.“ Gylfi segist ekki kunna skýringar á því hvers vegna svo er.

Mótmælti almennri skuldalækkun

„Kannski er það skortur á trúnaði. Við Ragnar Þór höfum líka tekist á á þingum  og hann hefur tvisvar orðið undir. Það kann að vera að það sé einhver kali vegna þess. Hann telur að ég beri mikla ábyrgð á því að hér hafi ekki verið farið í skuldalækkun 2008 og 2009. Það er rétt, ég setti mig upp á móti því. Ég benti þá á að miðað við þau gögn sem þá voru til benti allt til að slíkt kæmi fyrst og fremst hinum tekjuhæstu til góða því ríkt fólk skuldar meira. Það kom síðan í ljós þegar almennar skuldalækkanir þarsíðustu ríkisstjórnar skiluðu sér að þremur fjórðu í vasa þeirra sem þurftu ekkert á því að halda,“ segir Gylfi.

„Alþýðusambandið taldi hins vegar að skuldir ungs fólks þyrftu að lækka um allt að 60%. Þannig var 110% leiðin ættuð frá ASÍ, sem hluti af almennu greiðsluaðlögunarkerfi, en bankarnir tóku þetta líka upp sem frjálsa aðferð til að vinna á þessum kúf. Þeir sem fóru gegnum hrunið á grundvelli tillagna og úrræða Alþýðusambandsins eru bara býsna vel staddir í dag og eru með meira eigin fé en fyrir hrun. En þeir sem fóru að tillögum meðal annars Hagsmunasamtaka heimilanna og fóru í „greiðsluverkföll“ „skiluðu lyklunum“ eða létu lýsa sig gjaldþrota og fleiri úrræði – sem fólst í því að einstaklingar fóru í stríð við fjármálakerfið – þetta eru þeir sem fóru verst út úr hruninu. Þetta eru þeir sem nú eru með þetta sem hluta af sinni greiðslusögu og fá hvorki greiðslumat né bankaábyrgð. Ég mælti gegn þessu, ég varaði við þessu og taldi ekki skynsamlegt að einstaklingur tæki að sér að fara í stríð við alþjóðlegt fjármálakerfi,“ segir Gylfi.

Hófsemdamaður sátta

„Þetta var á sínum tíma tilefni gagnrýni. Ragnar gagnrýnir mig fyrir að hafa ekki gert þetta en ég verð að viðurkenna að ég er mjög ánægður og stoltur yfir að hafa staðið með þessari afstöðu sem þingið mitt tók. Það sem við lögðum til var það sem hjálpaði fólki út úr þessum vanda.“ Þeir sem hafa starfað með Gylfa undanfarin ár og áratugi, bæði við hlið hans en einnig hinum megin við samningaborðið, lýsa honum sem hófsemdarmanni og manni sátta.

„Ég erfi það frá forverum mínum og er ágætlega skólaður til í þessu. Það er hlutverk forsetans að leita málamiðlana milli ólíkra sjónarmiða í 120.000 manna hreyfingu, sem inniheldur fólk á lægstu launum í landinu yfir í fólk með sjómannalaun og laun millistjórnenda og sérfræðinga. Þetta er hin norræna aðferð. Norræna módelið byggir á samtali. Í samtalinu, þegar ASÍ er í daglegum samskiptum við Samtök atvinnulífsins, þá erum við alla daga að leita málamiðlana. Tökum sem dæmi nýlega löggjöf um keðjuábyrgð. Alþýðusambandið kynnti kröfur sínar um keðjuábyrgð árið 2006. Þá var algjörlega fyrirmunað að stjórnvöld eða SA væru viljug til að fara þessa leið með okkur. Samtök iðnaðarins og byggingariðnaðurinn skildu svo á endanum hvað við vorum að tala um því undirboðin í kjörum launafólks eru félagsleg með okkar augum en þau eru samkeppnisleg með augum atvinnurekenda – sami gjörningurinn! Ef fyrirtæki kemst upp með að starfa utan laga og réttar þá undirbjóða þau í öllum tilboðum. Í dag erum við komin með samning um starfsemi starfsmannaleiga – sem geta verið skynsamlegar ef farið er að leikreglum á vinnumarkaði – og með lög um keðjuábyrgð. Þetta eru dæmi um hvernig samtalsleiðin getur virkað. En þá þarftu að vera maður málamiðlana þar sem þú horfir ekki bara á hagsmuni þinna samtaka heldur setur þig líka í  spor gagnaðilans. Samningatækni byggir ekki bara á að lemja í gegn kröfuna þína heldur semja um að menn finni sameiginlega leið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.