Enginn efast lengur um snilligáfu Steve Jobs, eins stofnenda Apple og mannsins á bak við stórkostlega velgengni fyrirtækisins síðasta rúma áratug. Að sama skapi eru fáir sem halda því fram að hann hafi verið auðveldur samstarfs- eða yfirmaður.

Jobs virtist hafa nánast yfirnáttúrulega hæfileika til að sjá fyrir framtíðina og staðsetja Apple þannig að fyrirtækið gæti hagnast sem mest á nýrri tækni og tísku. Jafnvel má ganga lengra og segja að Jobs hafi mótað framtíðina með vörum eins og iPod, iTunes, iPhone-símunum og iPad spjald- tölvunum.

Innan veggja Apple bar hann hins vegar ábyrgð á ótöldum magasárum og svefnlausum nóttum. Jobs var með fullkomnunaráráttu á háu stigi og hafði litla sem enga þolinmæði fyrir fólki sem ekki gat eða vildi uppfylla kröfur hans. Sögur eru sagðar af því að hann hafi rekið menn í lyftunni í höfuðstöðvum Apple ef þeir gátu ekki sannfært hann um mikilvægi þeirra fyrir fyrirtækið. Raunin er sú að hann rak ekki marga starfsmenn, en nógu marga samt til að aðrir starfsmenn urðu hræddir við hann.

Þegar þú vinnur fyrir mann sem bætir þig í starfi ert þú væntanlega tilbúinn að sætta þig við að hann öskri á þig endrum og eins.

Nánar er fjallað um stjórnunarhætti Steve Jobs í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.