Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hringdi í Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í miðju hruni til að fara fram á að erlendir kröfuhafar yrðu ekki hlunnfarnir.

Geir sagði í viðtali á Bylgjunni í morgun að hugsanlega hefði Ísland lent í mun meiri vandræðum hefði landið verið aðildarland ESB. Hann sagði landið ekki hafa verið í þeirri stöðu að hægt væri að taka tilmælum frá Evrópusambandinu en erfiðara hefði verið að standa í hárinu á framkvæmdastjórninni hefðum við átt aðild að sambandinu.

Geir lýsti því hvernig José Manuel Baroso, þá forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefði verið með fyrirfram tilbúinn texta sem hann hefði að miklu lesið fyrir Geir. Áherslan hafi verið á að Ísland myndi koma vel fram við erlenda lánadrottna.