Almennt þykir mér samfélagið enn horfa of mikið í baksýnisspegilinn í stað þessa ð leita lausna til framtíðar, segir Sigþór Jónsson  framkvæmdastjóri Landsbréfa. Hann svaraði nokkrum spurningum í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins, sem kom út á mánudaginn.

Hvernig var árið 2013 heilt yfir?
Fyrir mig og fjölskylduna hefur þetta verið gott og viðburðaríkt ár og óneitanlega stendur fæðing sonar míns á haustmánuðum upp úr. Þá var 2013 fyrsta starfsárið hjá Landsbréfum þar sem flottir hlutir eru að gerast. Fyrir samfélagið í heild hefði ég þó viljað sjá meiri fjárfestingar og aukinn vöxt.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Almennt þykir mér samfélagið enn horfa of mikið í baksýnisspegilinn í stað þess að leita lausna til framtíðar. Kosningar og ríkisstjórnaskipti á árinu mynduðu líka eðlilega ákveðna biðstöðu. Ég fagna engu að síður aukinni umræðu um lagningu sæstrengs til Bretlands og olíuleit á Drekasvæðinu en þetta tvennt held ég að geti skilað samfélaginu okkar miklu í framtíðinni.

Hvernig hefur nýja ríkisstjórnin staðið sig?
Væntingar til nýrrar ríkisstjórnar voru miklar og jafnvel óraunhæfar. Það tekur alltaf tíma að vinna að miklum breytingum en líklegast hefur hún nú ekki staðið undir væntingunum í augum flestra – svona í upphafi.

Hverjar eru væntingar þínar á nýju ári?
Ég er satt best að segja nokkuð bjartsýnn. Við í Landsbréfum horfum fram á mikinn vöxt og áframhaldandi vöruþróun. Þá bind ég vonir við að fjármagn sem hefur verið bundið í innlánum leiti í auknum mæli út í samfélagið með aukinni fjárfestingu og að hreyfing komist á hlutina. Ef það gengur eftir verður árið 2014 gott ár.

Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, kom út á mánudaginn. Í blaðinu eru viðtal við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra, Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðing, Þorstein Baldur Friðriksson, stofnanda Plain Vanilla, og Hugleik Dagsson svo dæmi séu nefnd. Þá er umfjöllun um veiði, Kardashian-hagkerfinu gerð skil sem og launum helstu knattspyrnumanna. Að auki er margt, margt fleira....