Gordon Brown, fyrrum forsætisráðherra Breta, segir í væntanlegri bók sinni að Bretar hafi átt að sækja bankamenn í Bretlandi til saka líkt og var gert á Íslandi í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar árið 2008.

"Ef hegðun bankamanna var óheiðarleg samkvæmt hefðbundnum viðmiðum um hvað sé eðlilegt og heiðarlegt, hefði þá ekki átt að leggja fram ákærur í Bretlandi líkt og við höfum séð gerast á Írlandi, Íslandi, Spáni og Portúgal?" skrifar Brown að því er kemur fram á vef Financial Times . Hann nefnir þó ekki að bankamenn hafi verið sakfelldir fyrir LIBOR hneykslið svokallaða þar sem bankar höfðu ólögmætt samráð um að hafa áhrif á og stilla af millibankavexti í London.

Brown segir jafnframt í bókinni að breska fjármálakerfið ekki hafa lært lexíu sína eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna 2008. Hann segir að bankarnir sem voru of stórir til þess að falla árið 2008 hafi aðeins stækkað á síðustu árum.

Gordon Brown var forsætisráðherra Breta árið 2008 þegar hryðjuverkalög voru sett á íslenska banka til þess að frysta innistæður þeirra. Í kjölfarið myndaðist hávær krafa á Íslandi um að íslenska ríkið stefndi Bretum fyrir misbeitingu þeirra en meðal annars lagði Gunnar Bragi Sveinsson fram þingsályktunartillögu ásamt þrettán þar sem lagt var til að íslenska ríkið höfðaði mál á hendur Bretum líkt og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma .