Óheppilegt er að ekki skyldi auðnast að opna og leggja fram samningsafstöðu í fjórum köflum í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið, að því er fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðna við ESB og þróun þess. Þetta eru kaflarnir sem snúa að landbúnaði, sjávarútvegi, kafla um frjálsa fjármagnsflutninga og kafla um staðfesturétt og þjónustufrelsi.

Í skýrslunni segir að þrátt fyrir að Ísland hafi nú þegar aðlagast reglu- og stofnanagerð Evrópusambandsins að hluta í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hafi verið ljóst að aðildarferlið færi eftir þeim formlegu reglum sem gilda. Engin augljós ástæða var að ætla að frá því fengjust undanþágur og að hægt yrði að flýta hinu formlega ferli enda gengið út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild.

Þegar hlé var gert á aðildarviðræðum höfðu 27 kaflar af aðildarsamningi verið opnaðir. Af þeim hefur 11 verið lokað til bráðabirgða, 6 kaflar ekki enn verið opnaðir en samningsafstaða legið fyrir í tveimur. Samningsafstaða lá ekki fyrir í fjórum köflum.

Erfitt að ná sátt um landbúnaðinn

Skýrsluhöfundar segja að hvað landbúnaðarkaflann snerti hafi málum verið öðruvísi farið en t.d. er snerti sjávarútvegsmál. Ísland hafði lagt fram aðgerðaáætlun um undirbúning og afhent hana Evrópusambandinu. Evrópusambandið hafði samþykkt áætlunina fyrir sitt leyti og boðið Íslendingum að leggja fram samningsafstöðu í landbúnaðarmálum. Ekki tókst hins vegar að leggja lokahönd á samningsafstöðuna áður en viðræðunum var frestað. Ætla má að ástæða þess sé að treglega hafi gengið að sætta ólík sjónarmið hér innanlands, að mati skýrsluhöfunda.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar segir hins vegar um sjávarútvegskaflann:

„Hvað varðar sjávarútvegskaflann er mikilvægt að árétta að þegar viðræðunum var frestað hafði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ekki lagt fram rýniskýrslu sína og Ísland gat því ekki lagt fram formlega samningsafstöðu sína í sjávarútvegi. Þar sem samningsafstaða Íslands lá ekki fyrir er erfitt að átta sig á hver framvinda viðræðnanna hefði orðið en ljóst er að erfitt hefði verið að semja út frá þeim áherslum sem lagðar eru í meirihlutaáliti utanríkisnefndar sem lagt var fram þegar Alþingi samþykkti að sækja um aðild. [...] Þá má ætla að deilur um skiptingu og stjórn makrílstofnsins hafi ekki flýtt fyrir að kaflinn yrði opnaður þar sem hugmyndir voru uppi um að setja opnunarviðmið af hálfu Evrópusambandsins. Slíkt hefði kallað á að Ísland hefði þurft að leggja fram tímasetta áætlun um hvernig og hvenær Íslendingar hygðust aðlagast löggjöf og stefnu Evrópusambandsins.“