Benedikt Jóhannesson segir fund sem fulltrúar ráðuneytisins áttu við aflandskrónueigendur í New York á dögunum ekki tengjast þeirri ákvörðun að afnema gjaldeyrishöftin í dag.

,,Það voru nokkrir aðilar sem óskuðu eftir því við Seðlabankann að eiga með honum fund, og á þann fund mættu fulltrúar fjármála- og forsætisráðuneytisins líka," sagði Benedikt í samtali við Viðskiptablaðið.

Vildi hann ekki tjá sig um það hvort það hefðu verið sömu aðilar og hafa nú tekið tilboðum í aflandkrónur fyrir 90 milljarða líkt og kom fram á blaðamannafundi fyrr í dag .

,,En vonandi verða miklu, miklu fleiri sem taka þessu almennt," sagði Benedikt. ,,Ég hef trú á því og vona að það verði sem flestir."

Segir kostnað af því að ganga ekki frá samningum

Spurður út í ástæðuna fyrir því að aflandskrónueigendurnir og tilboð til þeirra væri haft með í samfloti við afnám haftanna sagði svaraði hann:

,,Það var ekki búið að afgreiða þær, það var enn 190 milljarða aflandskrónustabbi eftir," sagði Benedikt en stjórnvöld þá hefðu ekki talið hægt að teygja sig lengra, en Seðlabankinn bauð þeim 190 krónur á evruna í kjölfar þess sem átti að vera síðasta gjaldeyrisútboðið 16. júní síðastliðinn. Eftir það áttu þeir aðeins að geta selt aflandskrónurnar á 220 krónur fyrir evruna, þann 1. september til 1. nóvember.

,,Það verð hefur greinilega ekki verið nógu spennandi fyrir þá. En nú lendum við í því að krónan er búin að styrkjast frá því að vera 140 krónur miðað við evru niður í 115 krónur miðað við evru.

Ég held það hafi engan órað fyrir því í júní eða júlí í fyrra að þessi mikla styrking yrði sem sýnir óvissuna í þessu. Það er bara kostnaður af því að ganga ekki frá samningum."

Boðið lægra en gengið var þá

Á þessum tíma stóð gengi evrunnar í 137,9 krónum evran, svo aflandskrónueigendur hefðu þurft að gefa eftir 27,4% af eignum sínum, en nú er tilboðsverðið sem þeim er gefið 137,5 krónur, sem er 16,1% afföll af eignum miðað við gengi krónunnar sem stendur nú í 115,37 krónum þegar þetta er skrifað.

Spurður hvort við værum að missa trúverðugleika með því að taka þá inn núna þegar þeim hafi verið sagt að þeir þyrftu að bíða sagði hann að þeim hefði verið sagt að staðan yrði endurmetin eftir áramótin.

,,Svo þetta er alveg eins og sagt var," sagði Benedikt og vildi ekki meina að gefið hefði verið eftir með nýja tilboðinu til kröfuhafanna.

,,Það fer eftir það hvernig á það er litið vegna þess að gengið hefur hreyfst til. Við hefðum greinilega þurft að vera með lægra gengi síðast til þess að ná þeim inn en miðað við stöðuna í dag hefðum við grætt á því.

En það vissu menn ekki á þeim tíma svo ég get ekkert verið að áfellast menn fyrir að hafa ekki gert það þá."