Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, segist ekki mega tjá sig um innihald þeirra gagna sem tengjast Icesave-samningunum og stjórnvöld vilja ekki gera opinber.

„Ég má ekki tjá mig um [innihaldið] en ég hefði haldið að gögnin væru bitastæðari miðað við lögreglufylgdina sem kom þeim [í hús]," segir hún í samtali við Viðskiptablaðið. Ekkert hefði verið í gögnunum sem hún hefði ekki heyrt áður.

Um 24 skjöl er að ræða. Þingmenn fá aðgang að þeim í lokuðu herbergi Alþingis. Önnur fylgiskjöl hafa verið birt á Island.is .

Þegar hún er spurð hvort þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafi rætt þann möguleika að þrýsta á um að hulunni verði svipt af gögnunum svarar hún því til að það hafi ekki verið rætt. Það sé heldur ekki forgangsmál m.a. í ljósi þess að innihaldið hafi ekki verið merkilegt. „Við munum ekki leka þeim út. Það er alveg á hreinu," segir hún. „Við erum beðin um trúnað og þá veitum við hann að sjálfsögðu."

Hún segir aðalatriðið að einbeita sér að því að leysa þessi mál. „Ég vildi óska að við bærum gæfu til þess að horfa heildstætt á skuldastöðu ríkisins, fá hana upp á yfirborðið og semja um allan pakkann."

Setjumst aftur að samningaborðinu

Margrét kveðst aðspurð telja að Icesave-ríkisábyrgðin verði felld á Alþingi. Það sé hennar tilfinning. Í kjölfarið verði sest aftur að samningaborðinu.

Hún segir að Icesave-samningarnir séu óásættanlegir. Íslendingar geti ekki staðið undir þeim. „Við verðum að semja okkur út úr þessu," segir hún. „En við eigum heldur ekki að hrökkva í þann gír að vera bara gömul nýlenda sem lætur kúga sig."

Bretar og Hollendingar séu vanir nýlenduherrar sem beri takmarkaða virðingu fyrir þrjú hundruð þúsund manna þjóð.