„Þetta hefði vel mátt bíða næstu ríkisstjórnar," segir Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra um frumvarp iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, um heimild til samninga um álver í Helguvík.

Frumvarpið var afgreitt úr ríkisstjórn fyrir helgi. Kolbrún, sem ekki var á ríkisstjórnarfundinum þegar málið var afgreitt, segist ekki munu styðja það.

Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að ganga til samninga við Century Aluminum Company og Norðurál Helguvík efh. vegna byggingar og reksturs álvers í Helguvík.

„Ég hef aðrar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu og atvinnustefnu en lýsir sér í þessum samningi. Auk þess eigum við ekki losunarheimildir fyrir fleiri álver og við eigum ekki orkuna . Við höfum skuldbundið okkur til að nýta viðkvæmar auðlindir okkar af varúð og það samrýmist ekki slíkri nálgun að reisa risaorkuver fyrir stórnotendur með tilheyrandi umhverfisspjöllum. Við þurfum að byggja upp atvinnuvegi sem standast þær kröfur sem hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar setur," segir Kolbrún.

Nánar verður rætt við Kolbrúnu í Viðskiptablaðinu.