*

laugardagur, 6. júní 2020
Erlent 22. ágúst 2019 12:35

Hefja 19 tíma tilraunaflug

Qantas mun ákveða fyrir lok árs hvort félagið muni hefja lengstu farþegaflug heims.

Ritstjórn

Ástralska flugfélagið Qantas mun fyrir lok þessa árs hefja tilraunaflug frá Sydney til London og New York en flugtíminn milli staðanna er 19 klukkustundir og yrði því um lengsta farþegaflug í heimi að ræða. Lengsta farþegaflug í heimi í dag er á milli Singapúr og New York og er flugtíminn að meðaltalui 18 klukkustundir og 25 mínútur. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Markmiðið með tilraunafluginu er að leggja mat á hvort farþegar og áhafnarmeðlimir geti staðist maraþonflugin. Prófanirnar munu fara þannig fram að allt að 40 farþegar verða um borð í vélum félagsins og munu verða gerðar athuganir á heilsu þeirra meðan á fluginu stendur. Farþegarnir um borð munu samanstanda af starfsmönnum Qantas. Fylgst verður með svefnmynstri farþega og áhafna og matar- og drykkjarneyslu þeirra til leggja mat áhrif flugsins á heilsu og líkamsklukku. 

Alan Joyce, forstjóri Qantas hefur sagt að bein flug frá austurströnd Ástralíu til New York og London séu lokatakmarkið í flugi. Hann hefur þó sagt að á sama tíma veki lengd flugsins skynsamar spurningar um þægindi og vellíðan farþega. 

Qantas mun notast við Boeing 787 vélar á flugleiðunum og mun ákvörðun verða tekin fyrir lok árs hvort flugleiðirnar komi inn í leiðakerfi félagsins. 

Stikkorð: Qantas