*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Erlent 22. júní 2020 15:53

Hefja flug til Kína á ný

Delta hefur flug milli Seattle og Sjanghæ á fimmtudaginn. Fyrsta bandaríska flugfélagið til að hefja flug til Kína á nýjan leik.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines mun hefja farþegaflug milli Seattle og Sjanghæ þann 25. júní nk. og verður þar með fyrsta bandaríska flugfélagið til að hefja flug milli Kína og Bandaríkjanna frá því að COVID-19 faraldurinn skall á. Öll farþegaflug milli Bandaríkjanna og Kína voru bönnuð í febrúar sl. vegna fyrrnefnds heimsfaraldurs. Reuters greinir frá.

Fyrst um sinn í júní verða farnar tvær ferðir á milli áfangastaðanna en í júlí mun ein ferð á viku fara frá Seattle til kínversku höfuðborgarinnar, auk þess sem ein ferð verður frá Detroit til Sjanghæ.

Í síðustu viku greindi samgönguráðuneyti Bandaríkjanna frá því að Bandaríkin og Kína myndu hvort um sig leyfa fjögur flug á viku milli landanna í viku hverri. Þrátt fyrir það höfnuðu bandarísk yfirvöld beiðni kínverskra flugfélaga um að hefja áætlunarflug í hverri viku milli landanna. Var það þó tekið fram að ákvörðunin hafi ekki verið tekin með það í huga að skapa spennu milli landanna vegna fyrrnefnds ferðabanns.

United Airlines, sem er líkt og Delta eitt stærsta flugfélag Bandaríkjanna, hefur einnig gefið það út að félagið hyggist hefja flug milli Kína og Bandaríkjanna á komandi vikum.  

Stikkorð: Bandaríkin Kína United Airlines Delta flug Bandaríkin Kína COVID-19