Matsnefnd eignarnámsbóta hefur fallist á beiðni Vegagerðarinnar um að taka land eignarnámi á Kjalarnesi þrátt fyrir að bótafjárhæð liggi ekki fyrir. Eigandi landsins, Brimgarðar ehf., hyggst láta reyna á lögmæti eignarnámsins fyrir dómstólum.

Þetta kemur fram í úrskurði nefndarinnar sem kveðinn var upp í upphafi viku. Landspildurnar sem um ræðir eru tæplega 3,7 hektarar að flatarmáli, annars vegar 35 þúsund fermetrar úr landi Esjubergs á Kjalarnesi og 1.573 fermetrar úr landi Móa á Kjalarnesi. Fyrirhugað er að landið fari undir malbik við tvöföldun hringvegarins á Kjalarnesi.

Samningaviðræður milli aðila vegna landsins hafa staðið yfir með hléum frá því í apríl 2019 án þess að botn hafi fengist í þær. Í nóvember síðastliðnum gerði Vegagerðin Brimgörðum tilboð um eignarnámsbætur samhliða því að stjórnvaldið tilkynnti Brimgörðum að fyrirhugað væri að taka landið eignarnámi. Samningaviðræður um bætur reyndust árangurslausar og tók Vegagerðin landið eignarnámi 10. febrúar síðastliðinn og fór fram á að nefndin úrskurðaði um bótafjárhæð.

Óhætt er að fullyrða að eftir að ákvörðun um eignarnám var tekin hafi skammur tími liðið þar til úrskurður um umráð var tekinn. Fyrsta fyrirtaka þess var 19. febrúar og viku síðar fóru nefndarmenn og lögmenn aðila á vettvang. 3. og 4. mars óskaði nefndin eftir frekari upplýsingum frá Vegagerðinni og 8. mars var málið tekið fyrir á ný. Málið var tekið til úrskurðar og úrskurður kveðinn upp samdægurs.

Telja eignarnámið ólögmætt

Brimgarðar mótmæltu því að eignarnámið næði fram að ganga og boðuðu að látið yrði reyna á lögmæti þess. Af þeim sökum fór Vegagerðin fram á það fyrir nefndinni að áður en virði landsins yrði metið myndi nefndin úrskurða um lögmæti umráðatöku landsins. Fyrirhugað væri að hefja framkvæmdir á svæðinu strax í fyrstu viku mars 2021 og lægi því mikið á að fá niðurstöðu um umráðatökuna svo verkið myndi ekki tefjast.

Mikið lægi á að hefja fergingar á hinu umþrætta landi enda væri búið að fergja vegstæðið á aðliggjandi jörðum. Fergingu ætti að vera lokið í mars og því mikilvægt að fá umráð yfir landspildunni til að forða því að verktími lengdist með tilheyrandi framúrkeyrslu á kostnaðarhliðinni.

Brimgarðar byggðu aftur á móti á því að stress Vegagerðarinnar mætti alfarið rekja til ástæðna sem væri stjórnvaldinu sjálfu að kenna. Það ætti að standa Vegagerðinni nær að hafa ekki tekið fyrr ákvörðun um eignarnám.

„Að framkvæma eignarnám samtímis því sem verktaki eigi að hefja vinnu á landi eignarnámsþola sé óafsakanlegt og eignarnámsþola óviðkomandi. Vísar eignarnámsþoli til þess að eigarnemi hafi haft vitneskju um verkáætlun verktakans fyrir löngu síðan því verkið hafi verið boðið út af eignarnema sjálfum og hafi hann ráðið öllum skilmálum,“ segir í sjónarmiðum Brimgarða.

Var enn fremur bent á að verkið hafi verið boðið út árið 2019 og tilboð opnuð í maí það ár. Það hafi því legið lengi fyrir hvað stæði til. Um mögulegt ólögmæti eignarnámsins vísaði félagið til dóms Hæstaréttar frá maí 2015 um eignarnám Landsnets vegna Suðurnesjalínu 2. Samkvæmt þeim dómi réttarins nægir ekki aðeins að eignarnemi færi rök fyrir því að almannaþörf sé fyrir eignarnáminu heldur verður hann einnig að „færa að því rök að tafarlaus umráðataka sé nauðsynleg.“

Verulegt óhagræði ef framkvæmdir biðu eftir bótum

„Samkvæmt fyrirætlunum eignarnema er ráðgert að vinnu við 1. áfanga verksins verði lokið í mars 2021. Áformar verktaki að hefja vinnu í landi eignarnámsþola eftir fyrstu viku marsmánaðar. Fram er komið af hálfu eignarnema að 1. áfangi feli meðal annars í sér vinnu við fergingu vegna Hringvegar, hliðarvega og stíga, gerð framræksluskurða og grjótræsa auk fyllinga í skurði sem eigi að leggjast af. Fergt verði undir nýtt vegsvæði Hringvegar og nýja hliðarvegi í landi eignarnámsþola. Frá nýja hringtorginu, sem verði að hluta í landi eignarnámsþola, verði tengingar inn á hliðarvegi og að öðrum jörðum,“ segir í niðurstöðukafla nefndarinnar.

Vegagerðin byggði á því að hver áfangi verksins væri í bundinni línu við eftirfarandi áfanga þess. Töf á fergingu væri til þess fallin að tefja verkið í heild um ófyrirséðan tíma. Matsnefndin féllst á þessi sjónarmið og sagði að „tímans vegna [væri Vegagerðinni] nauðsyn á að fá fljótt umráð hins eignarnumda lands“. Það var einnig mat nefndarinnar að Vegagerðinni „yrði við þessar aðstæður verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta“.

Var Vegagerðinni því með úrskurði heimiluð umráð landsins þrátt fyrir að bætur hefðu ekki verið ákveðnar. Ákvörðun um málskostnað til Brimgarða bíður niðurstöðu nefndarinnar um fjárhæð eignarnámsbóta.