Peningastefnunefnd Seðlabanka Evrópu greindi frá því fyrr í dag að ráðist verði í aðgerðir til að örva hagkerfi evrusvæðisins. Nefndin lækkaði innlánsvexti fjármálastofnanna um 0,1 prósentustig og eru þeir nú neikvæðir um 0,5 prósentustig en stýrivextir bankans héldust þó óbreyttir við núllið.

Þá var einnig greint frá því að seðlabankinn muni hefja skuldabréfakaup á nýjan leik þann 1. nóvember næstkomandi en bankinn stöðvaði skuldabréfakaup sín í desember síðastliðnum sem höfðu þá staðið yfir frá árinu 2015. Á tímabilinu sem skuldabréfin stóðu yfir ríflega tvöfaldaðist eignir bankans og stóð hún í um 4.700 milljörðum evra í lok síðasta árs. Þar hafði skuldabréfa eign farið úr 590 milljörðum evra í lok árs 2014 í 2.899 milljarða við lok árs 2018.

Skuldabréfakaupinn sem gengið hafa undir nafninu magnbundinn íhlutun (e. quantitative easing) munu nema 20 milljörðum evra á mánuði sem er töluvert lægra en þegar kaupinn náðu hámarki sínu árið 2016 þegar þau námu um 80 milljörðum evra en eru þó eilítið viðameiri en þau voru á fjórða ársfjórðungi síðasta árs þegar þau námu 15 milljörðum evra á mánuði.

Þungt yfir evrusvæðinu

Eins og áður segir eru aðgerðir peningastefnunefndarinnar liður í því að örva bæði hagvöxt og verðbólgu á evrusvæðinu. Í yfirlýsingu nefndarinnar kom fram að skuldabréfakaupinn munu standa yfir eins lengi og nauðsynlegt er og að vextir munu verða á sama stað eða lægri á meðan verðbólga á evrusvæðinu er undir 2% verðbólgu markmiði bankans.

Þá greindi Mario Draghi, fráfarandi seðlabankastjóri frá því að útlit sé fyrir að verðbólga á svæðinu muni lækka en frekar áður en muni taka við sér undir lok ársins. Þá greindi hann einnig frá því að hagvaxtarspá fyrir evrusvæðið hefði verið lækkuð. Seðlabankinn gerir nú ráð fyrir 1,1% hagvexti á þessu ári og 1,2% vexti á því næsta. Þessu til viðbótar er Þýskaland, stærsta hagkerfi evrusvæðisins á barmi þess að fara inn í samdráttarskeið (e. recession).

Sagði Draghi að evrusvæðið væri að verða fyrir slæmum áhrifum af veikari stöðu í alþjóðaviðskiptum í umhverfi sem væri litað af óvissu. Draghi mun láta af störfum sem seðlabankastjóri Evrópu þann 1. nóvember næstkomandi  þegar Christine Lagarde fyrrum framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mun taka við.

Í frétt BBC um aðgerðir peningastefnunefndarinnar kemur fram að þær hafi verið undir væntingum markaðsaðila sem höfðu gert ráð fyrir skuldabréfakaupum upp á 30 milljarða evra á mánuði. Aðgerðirnar gefi þó til kynna að peningastefnunefndinni sé alvara með lausra taumhaldi peningastefnunnar og geti auðveldlega ráðist í öflugri aðgerðir sem svari við versnandi aðstæðum í efnahagslífinu.