*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Innlent 15. nóvember 2018 14:17

Hefja samstarf á sviði umhverfisstjórnunar

Landvernd og Klappir grænar lausnir hf. hafa skrifað undir yfirlýsingu um samstarf á sviði stafrænnar umhverfisstjórnunar.

Ritstjórn
Fyrir hönd Landverndar: Katrín Magnúsdóttir, verkefnisstjóri, Rannveig Magnúsdóttir, verkefnastjóri, Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Fyrir hönd Klappa Grænna Lausna: Þorsteinn Svanur Jónsson, Sigrún Hildur Jónsdóttir og Anton Birkir Sigfússon.
Aðsend mynd

Landvernd og Klappir grænar lausnir hf. hafa skrifað undir yfirlýsingu um samstarf á sviði stafrænnar umhverfisstjórnunar. Markmiðið með samstarfinu er að nýta stafræna tækni og miðlun gagna til að auðvelda sveitarfélögum að mæla vistsporið af starfsemi þeirra.  Eins er stefnt að því að auka læsi nemenda á umhverfisáhrif með því að veita þeim aðgang að raungögnum um umhverfisáhrif skólanna.

Landvernd hefur frá árinu 2013 unnið að loftslagsverkefni með íslenskum sveitarfélögum sem miðar að aðgerðum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í verkefninu safna sveitarfélögin gögnum um þrjá mengunarvalda, þ.e. orku, samgöngur og úrgang ásamt því að setja sér markmið og útbúa aðgerðaráætlun til að draga úr losun lofttegundanna. Upplýsingum um framvindu og árangur er svo miðlað áfram til Landverndar með árlegum framvinduskýrslum og kolefnisbókhaldi.

Klappir er hugbúnaðarhús sem hefur frá árinu 2014 þróað hugbúnað til umhverfisstjórnunar. Með Klappir Core búnaðinum er fyrirtækjum og stofnunum gert kleift að halda utan um umhverfismál sín með einföldum og sjálfvirkum hætti, setja sér markmið og fylgjast með árangri.

Með samstarfsyfirlýsingunni er stefnt að því að rafvæða umrætt loftslagsverkefni Landverndar og auðvelda þátttakendum að mæla umhverfisáhrifin og miðla þeim áfram til Landverndar. Jafnframt hafa Landvernd og Klappir áhuga á því að tengja saman fræðslu í skólum um loftslagsmál og mat skólanna á losun sinni en Landvernd hefur sinnt fræðslustarfi í skólum árum saman.

Sveitafélög sem sýna umhverfismálum áhuga geta nú óskað eftir þátttöku í verkefninu og munu Landvernd og Klappir kynna þeim aðferðir við umhverfisstjórnun og aðstoða þau við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Stikkorð: Landvernd Klappir