Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur greint frá því að unnið sé að því að ná sáttarsamkomulagi við þýska neytendur sem hafa höfðað hópmálsókn gegn Volkswagen vegna útblásturshneykslis, en eins og frægt er orðið svindlaði bílaframleiðandinn á útblástursprófunum sem gerðar voru á díselbílum Volkswagen. Umræddir neytendur eiga það sameiginlegt að hafa keypt díselbíla frá Volkswagen, í þeirri trú að þeir menguðu minna en aðrir díselbílar. BBC greinir frá.

Að sögn Volkswagen og neytendaeftirlitsins í Þýskalandi eru sáttarviðræður á frumstigi og ekki sé gefið að það náist að sætta málið utan dómstóla. Í yfirlýsingu fyrrnefndra aðila segir að unnið sé að lausn málsins með hagsmuni neytendanna að leiðarljósi. Þar kemur einnig fram að viðræðurnar séu bundnar trúnaði.

Þessi tegund af hópmálsókn er með þeim fyrstu sem höfðaðar hafa verið í Þýskalandi.