Stjórn Kaupþings Búnaðarbanka hf. hefur heimild frá hluthafafundi bankans, sem haldinn var þann 5. júlí 2004 til að auka hlutafé bankans um allt að 110 milljónir hluta. Á fundi sínum í morgun, heimilaði stjórn bankans að bjóða fagfjárfestum að skila inn tilboðum um kaup á 80 - 110 milljónum hluta í bankanum.

Hlutirnir verða boðnir fagfjárfestum, bæði innan og utan núverandi huthafahóps til kaups. Lágmarksupphæð sem hægt er að skrá sig fyrir er 50 milljónir króna. Umsjón sölunnar er í höndum Fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings Búnaðarbanka hf. en Deutsche Bank er ráðgjafi bankans við sölu hlutanna.

Endanlegt verð mun ráðast af eftirspurn fagfjárfesta og markaðsaðstæðum en gert er ráð fyrir að það verði á bilinu 460 - 500 krónur á hlut. Það jafngildir 0,0% - 8,0% afslætti frá gengi hlutanna við lokun markaða í gær, þann 11. október, sem var 500 krónur. Stefnt er að því að selja hluti fyrir 40 milljarða króna en verði um verulega umframáskrift að ræða mun stjórn bankans geta aukið útboðsfjárhæðina í allt að 50 milljarða króna.

Það fjármagn sem Kaupþing Búnaðarbanki hf. fær við sölu hlutanna mun verða notað til að efla eiginfjárstöðu bankans. Jafnframt mun það verða notað til að auðvelda bankanum að fjármagna hugsanlegar yfirtökur á fyrirtækjum sem myndu efla fjárfestingarbankastarfsemi bankans og eignastýringu á Norðurlöndum og í Bretlandi.