Verslunin Magasin du Nord í Kaupmannahöfn hóf sölu á íslensku húðvörunum frá Feel Iceland í síðustu viku. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Feel Iceland býður upp á fæðubótaefni og húðvörur og vörurnar eru unnar úr aukaafurðum íslensks sjávarfangs. Haft er eftir Hrönn Margréti Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Ankra - Feel Iceland, í fréttatilkynningunni að þær séu í skýjunum yfir þessu, sér í lagi vegna þess að Magasin du Nord velur þær vörur vandlega sem seldar eru í versluninni. „Kollagen fæðubótaefni hefur verið gríðarvinsælt í Japan síðustu ár og nú er bylgjan að færast yfir til Evrópu og Bandaríkjanna.“ Segir Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Ankra – Feel Iceland.

Einnig er haft eftir Hrönn að þau séu að stíga sín fyrstu skref erlendis og að mikil eftirspurn hafi verið eftir vörum þeirra í erlendum mörkuðum.