Industria mun byggja upp breiðbandskerfi stafræns sjónvarps í Dublin fyrir Magnet Networks, fyrirtæki í eigu Columbia Ventures. Í verkefninu mun felast tenging heimila við ljósleiðaranet og gangsetningu stafrænnar efnisveitu.

Samningur þessa efnis var undirritaður í dag á milli Magnet Networks og Industria ehf. Felur samningurinn í sér að Industria tekur að sér uppbyggingu breiðbandskerfis Magnet frá grunni fyrir stafrænt sjónvarp, símaþjónustu og háhraða netþjónustu á írska markaðnum.
Um er að ræða stærsta útflutningsverkefni á þessu sviði sem íslenskt fyrirtæki hefur tekið þátt í, en samningurinn er upphafið að uppbyggingu sem mun hlaupa á milljörðum króna.

Ingvar Garðarsson, framkvæmdastjóri Magnet Networks, segir það stefnu fyrirtækisins að vera leiðandi á írska markaðnum. Þá stefni fyrirtækið einnig að því að færa út kvíarnar til annarra Evrópulanda eftir að félagið hefur komist vel á skrið á Írlandi. Ljóst sé að mikill vöxtur sé nú á þessu sviði. ?Í samningi Magnet Networks við Industria felst að síðarnefnda fyrirtækið mun tengja írsk heimili við ljósleiðara og þar með stafrænar efnisveitur. Jafnframt mun Industria annast hönnun, þróun og uppbyggingu á fjarskiptaneti okkar og byggja upp öflugt kerfi til miðlunar á gagnvirku sjónvarpsefni, háhraða neti og símaþjónustu, ásamt ýmsum nýjungum á borð við myndsíma og leikja- og öryggisþjónustu."

Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri Industria, segir í tilkynningu frá Industria að það mikla viðurkenningu á tæknilegum lausnum fyrirtækisins að þær skyldu hafa orðið fyrir valinu í svo viðamiklu verkefni sem stefnt er að á Írlandi. ?Breiðbandslausn Industria auðveldar til muna aðgengi almennings að þeirri þjónustu og þeim möguleikum sem í boði eru í nútíma sjónvarps- og fjarskiptarekstri. Lausnin verður nánar kynnt á Digital Reykjavík, ráðstefnu sem haldin verður á Nordica Hótel næstkomandi fimmtudag."

Industria er með höfuðstöðvar á Íslandi og rekur auk þess skrifstofur í Danmörku og á Írlandi. Hjá Industria starfa um 60 manns sem dreifast jafnt á milli landanna þriggja.

Magnet Networks er í eigu Columbia Ventures, fyrirtækis Kenneths Petersons, sem nýverið seldi eignarhlut sinn í Og Vodafone hérlendis.