Verkalýðsfélag Akraness, VR, Landssamband verslunarmanna og Framsýn stéttarfélag hafa ákveðið að hefja beint viðræður við Samtök atvinnulífsins um leiðir til að takast á við ástandið á vinnumarkaði. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, greina frá þessu á Facebook.

„Eitt af verkefnum stéttarfélaga er að verja atvinnuöryggi og lífsafkomu sinna félagsmanna og því ábyrgðarlaust að sitja með hendur í skauti í þessum fordæmalausu aðstæðum sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Ástandið versnar dag frá degi og líklegt að mánaðamótin verði þau svörtustu í sögu hreyfingarinnar og því ekki eftir neinu að bíða við að verja atvinnuöryggi okkar félagsmanna,“ segir Vilhjálmur í færslunni.

Vilhjálmur og Ragnar segja að það væri ábyrgðarleysi að gera ekkert. Markmiðið sé að ná þríhliða samkomulagi með það að markmiði að verja störf, kaupmátt og Lífskjarasamninginn.

Ragnar segist vonast til að fleiri verkalýðsfélög bætist í hópinn á næstunni.

Klofningur innan ASÍ

Vilhjálmur sagði af sér sem varaforseti ASÍ og Ragnar Þór Ingólfsson, sagði sig úr miðstjórn ASÍ, þann 1. apríl eftir að meirihluti miðstjórnar ASÍ féllst ekki á hugmyndir þeirra til að takast á við stöðuna á vinnumarkaði. Þeir hafa meðal annars talað fyrir því að framlag atvinnurekenda í greiðslur til lífeyrissjóðs verði tímabundið lækkað og þak verði sett á hækkun verðtryggðra lána.