Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Hefring ehf. hafa gengið frá samkomulagi um fjármögnun þar sem sjóðurinn eignast tæplega fjórðungshlut í félaginu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Hefring ehf. þróar lausnir sem auka öruggi sjófarenda og veita bátaeigendum betri yfirsýn yfir meðferð báta. Fyrsta vara félagsins, Hefring Marine, miðar að því að auka öryggi og fækka slysum um borð í hraðbátum. Hefring Marine veitir skipstjórnarmönnum leiðbeinandi upplýsingar á meðan á siglingu stendur og rekstraraðilum báta innsýn og greiningu á gögnum um hegðun og viðbrögð á siglingu. Búnaðinum má líkja við ökurita í bifreiðum sem margir þekkja. Hefring stefnir jafnframt á að búa til nýjar lausnir sem byggja á gögnum frá bátum, greina siglingu og aðra þætti sem nota má til að bæta rekstur báta.

Hefring hóf starfsemi árið 2018. Að fyrirtækinu standa þeir Karl Birgir Björnsson, Björn Jónsson og Magnús Þór Jónsson. Félagið tók þátt í TINC hraðlinum á vegum Nordic Innovation House í Palo Alto í Kaliforníu í nóvember 2018 og var einnig valið sem fulltrúi Íslands í alþjóðlegri samkeppni sprotafyrirtækja, Creative Business Cup National Competition í Kaupmannahöfn. Þá hefur Hefring verið kynnt við góðar undirtektir fyrir fjölda aðila sem starfa á bátamarkaði á alþjóðlegum vettvangi.

Fyrirtækið sér tækifæri fyrir búnaðinn hjá fjölmörgum notendum báta, svo sem hjá rekstraraðilum ferðaþjónustubáta, skemmtibáta og vinnubáta, en einnig hjá strandgæslum, björgunarsveitum og lögregluyfirvöldum. Hefring kynnir á þessu ári fyrstu útgáfu lausnarinnar fyrir fyrstu viðskiptavinum á Íslandi og í Noregi.

Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, segir í tilkynningunni:

„Við teljum Hefring áhugavert tæknifyrirtæki sem fellur vel að stefnu og áherslum Nýsköpunarsjóðs. Fyrirtækið hefur skýra alþjóðlega skírskotun, veitir betri upplýsingar um siglingar og rekstur báta og stuðlar þannig að fækkun slysa sem er mikilvægt þar sem sífellt eru gerðar auknari kröfur um öryggismál.“

Karl Birgir Björnsson, framkvæmdastjóri Hefring, segir:

„Við erum mjög ánægðir með aðkomu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins að fyrirtækinu og sjáum fram á gott samstarf með því öfluga teymi sem þar starfar. Aðkoman styður við áframhaldandi þróun og markaðsetningu á Hefring Marine lausninni sem við stefnum á að koma á markað í sinni fyrstu útgáfu á næstu mánuðum.“