Í úrskurði sínum um vaxtaákvæði gengistryggðra bílalána fellst Héraðsdómur Reykjavíkur á fjórðu varakröfu Lýsingar í málinu, um að miðað verði við að samningsfjárhæðin beri óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands. Héraðsdómur Reykjavíkur telur að samningsaðilar hefðu samið um aðra vexti hefðu þeir vitað að gengistryggingin væri ólögleg.

Héraðsdómur Reykjavíkur segir í dóminum að báðir aðilar samningsins hafi tekið mið af því við samningsgerð að lánið yrði verðtryggt með ákveðnum hætti og að jafnframt yrðu greiddir vextir sem tækju mið af umsaminni gengistryggingu. Héraðsdómur telur að gengistryggingin hafi verið veruleg forsenda og ákvörðunarástæða fyrir lánveitingunni. Þar sem Hæstiréttur hefur nú dæmt gengistryggingu bílalána ólöglega þá fellst Héraðsdómur á það með Lýsingu að samningurinn sé ekki bindandi að því er varðar vaxtaákvörðunina. Héraðsdómur telur því að Lýsing eigi rétt á því að fá greidda þá fjárhæð sem ætla má að aðilar hefðu ellegar sammælst um ef þeir hefðu vitað að gengistryggingin væru ólögleg.

Þá segir Héraðsdómur Reykjavíkur að hvorki neytendasjónarmið né staða aðila við samningsgerðina ættu að breyta þessari niðurstöðu.