Fjárfestirinn Bertrand Kan, sem var á meðal fjárfesta sem keyptu fimm prósenta hlut í Símanum í aðdraganda útboðs, segist hafa áhuga á stjórnarsetu í Símanum ef hann yrði beðinn um slíkt.

Þetta kemur fram í viðtali Fréttablaðsins við hann sem birtist í morgun. Kan hefur fylgst með Símanum frá árinu 2004 þegar hann var helsti ráðgjafi Morgan Stanley við einkavæðingu fjarskiptafélagsins. Í viðtalinu segir hann að það hafi verið að frumkvæði stjórnenda Símans sem hann kom að fjárfestingu í fyrirtækinu ásamt þeim.

„Mér hefur líkað vel við Símann í þau rúmu tíu ár sem ég hef þekkt fyrirtækið. Ég sagðist því vera áhugasamur og þannig byrjaði það,“ segir Kan. Spurður að því hvað hann hafi keypt stóran hlut segir hann að það skipti ekki máli. „Ég er ekki stærsti hluthafinn í hópnum og ekki sá minnsti. Ég er í miðjunni og er hluti af hópnum.“

Aðdragandi útboðsins hefur verið harðlega gagnrýndur, sér í lagi vegna þess að hópurinn sem Kan tilheyrir fékk að kaupa 5% hlut á genginu 2,5 krónur á hlut. Útboðsgengi var 3,33 krónur á hlut og þegar markaðir lokuðu í gær stóð það í 3,63 krónum á hlut.

Hann segist vera meðvitaður um gagnrýnina en bendir á að samið hafi verið um fjárfestinguna síðasta sumar og að ómögulegt sé að spá fyrir um gengi bréfa í Símanum til ársins 2017 þegar sölubann á hluti hans verði aflétt.