Ineos, félag Jim Ratcliffe, er í viðræðum við Mercedes-Benz um kaup á verksmiðju í Frakklandi til þess að framleiða fyrsta bíl félagsins.

Mercedes tilkynnti á fimmtudaginn að það ætli að selja verksmiðju sína í Hambach, sem hefur framleitt Smart bíla Daimler. Um 1.600 manns starfa í verksmiðjunni.

Ineos, sem hyggst framleiða sína eigin bíla undir nafninu Grenadier , sagði fyrr í dag að fyrirtækið hefði áhuga á að kaupa starfsstöðina sem myndi koma í veg fyrir þörf á að byggja tvær nýjar verksmiðjur og ráða og þjálfa starfsfólk í Bretlandi og Portúgal.

„Þetta eru alvarlegar rekstrar hugleiðingar,“ sagði Mark Tennant, markaðsstjóri Ineos Automotive, við Financial Times . Hann sagði jafnframt að viðræðurnar muni taka „vikur fremur en eitthvað lengra“.

Félagið hafði áætlað að hefja framkvæmdir í Wales og Portúgal í lok sumars og áform voru um að verksmiðjurnar myndu hefja framleiðslu fyrir lok árs 2021. Undir upphaflegu áætluninni hefði verksmiðjan í Portúgal framleitt skrokkhluta bílanna sem yrðu svo sendir til Wales og bílapartarnir settir saman í sérsmíðaðri verksmiðju fyrir verkefnið.

Sjá einnig: Félag Ratcliffe stækkar við sig

Ineos taldi upphaflega frönsku verksmiðju Mercedes vera of litla en eftir 445 milljóna punda uppfærslu árið 2018, sem gerir henni kleift að framleiða sportjeppa, var hún aftur talin álitlegur kostur fyrir félagið.

Félagið áætlar að framleiða 25 þúsund Grenadier bíla árlega þegar framleiðsla er kominn á fullt skrið en það horfir einnig til Wales starfstöðvarinnar fyrir aðrar týpur í framtíðinni.