„Við höfum áhyggjur af því að ákveðnir stjórnmálamenn séu að ganga erinda Sementsverksmiðjunnar [á Akranesi] sem er vel að merkja að stærstum hluta í eigu BM Vallár," segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ).

Í yfirlýsingu SVÞ í dag segir m.a. að því verði ekki trúað fyrr en á reyni að stjórnvöld muni standa fyrir aðgerðum sem komi á einokun á sementsmarkaði á ný.

Í Fréttablaðinu í morgun töluðu framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar, formaður Verkalýðsfélags Akraness og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, um að ríkið ætti að kaupa sement af innlendum aðilum og var þar verið að vísa til Sementsverksmiðjunnar. Í sömu frétt var greint frá rekstrarerfiðleikum verksmiðjunnar.

Í yfirlýsingu SVÞ er  rifjað upp að samkeppni hafi verið innleidd hér á landi fyrir um það bil tíu árum, þegar danska fyrirtækið Aalborg Portland, hafi hafið starfsemi á Íslandi. Fyrir þann tíma hafi sement á Íslandi verið talið það dýrasta í heiminum.

Standist varla EES-samninginn

„Það er engan veginn hægt að una við það út af samkeppnissjónarmiðum að aðilar eins og Steypustöðin - þótt hún sé tæknilega í eigu ríkisbanka - sé gert með stjórnvaldsákvörðun að beina viðskiptum sínum til Sementsverksmiðjunnar," segir Andrés.

Fram kom í frétt Ríkisútvarpsins í dag að Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði tekið málefni Sementsverksmiðjunnar til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi í morgun. Haft er eftir honum að mikilvægt væri að grípa til aðgerða til að tryggja framtíð íslenskrar sementsframleiðslu.

Í yfirlýsingu SVÞ segir að með EES-samningnum sé aðildarríkjum samningsins gert að koma í veg fyrir einokun á mörkuðum. „Fullyrða má að krafa um að fyrirtæki á samkeppnismarkaði (þó að þau séu tímabundið formlega séð í eigu ríkisbanka) beindi viðskiptum sínum til fyrirtækis í eigu samkeppnisaðila, færi gegn ríkjandi sjónarmiðum í samkeppnismálum og bryti beinlínis gegn ákvæðum samkeppnislaga. Sementsverksmiðjan á Akranesi er að mestum hluta í eigu eins stærsta steypuframleiðanda hér á landi."

Síðan segir að slík ráðstöfun muni jafnframt vafalítið teljast falla undir ríkisstyrkjaákvæði EES samningsins. „Til þess að ríkisstyrkir teljist heimilir verður Eftirlitsstofnun EFTA að samþykkja slíka ráðstöfun. Telja verður í meira lagi hæpið að ríkisstyrkur í því formi sem hér um ræðir yrði heimilaður af stofnuninni," segir m.a. í yfirlýsingu SVÞ.

Um 45 manns starfa hjá Sementsverksmiðjunni á Akranesi og níu manns starfa hjá Aalborg Portland á Suðurnesjum.