John Williams, seðlabankastjóri San Francisco seðlabankans, spáir því að vextir á vesturlöndum muni haldast lágir í langa tíð. Þetta kemur fram í nýjasta bréfi bankans, þar sem fjallað er um efnahagsmál.

Williams virðist samkvæmt bréfinu hafa áhyggjur af því að seðlabankar muni í framtíðinni ekki geta nýtt sér peningastefnuna fyllilega til þess að bregðast við markaðsbrestum.

Hann útilokar þó ekki hógværar vaxtahækkanir til skamms tíma, en hefur miklar efasemdir um langtímahorfurnar.

Williams bendir í bréfi sínu einnig á þær hættur sem geta skapast í lágvaxtaumhverfi til lengri tíma. Lágir vextir hafa til að mynda veruleg áhrif á afkomu banka, sem gæti leitt til enn meiri samþjöppunar og áhættusóknar í hagnaðarskyni.