Norvik-samstæðan, fjölskyldufyrirtæki Jóns Helga Guðmundssonar, hefur átt Kaupás í tíu ár eða síðan árið 2003. Viðskiptablaðið greindi frá því síðdegis í dag að Jón Helgi og Norvik vinni nú að því að selja rekstur Kaupáss til SÍA II, sjóðs sem rekinn er af Stefni, dótturfélagi Arion banka. Byko og erlendar eignir fylgja ekki með í viðskiptunum.

Ætlaði sér að eignast Kaupás

Kaupás varð til í maí árið 1999 með samruna verslana Nóatúns, Kaupfélags Árnesinga (KÁ) og klukkubúðanna 11-11. Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn, Landsbankinn og nokkrir lífeyrissjóðir keyptu félagið að nær öllu leyti ári síðar.

Morgunblaðið fór yfir sögu Kaupáss í kjölfar þess að Norvik keypti reksturinn árið 2003. Þar kom m.a. fram að eignarhaldið á Kaupási tók nokkrum breytingum eftir að félagið varð til. Þegar Eignarhaldsfélag Alþýðubankans rann saman við Þróunarfélag Íslands í október árið 2002 varð til félagið Framtak sem hélt utan um 34% hlut í Kaupási. Félagið jók hratt við eignarhlut sinn, keypti hluti sex lífeyrissjóða og var um mitt ár 2003 komið með rúm 50% í verslana-samstæðunni. Þegar Framtak komst í eigu fjárfestingarfélagsins Straums árið 2003. Í kjölfarið eignaðist Norvik 25% hlut í Framtaki. Eins og Morgunblaðið lýsti málinu stefndu stjórnendur Norvik að því að auka við eignarhlutinn í Kaupási. Þær áætlanir runnu út í sandinn. Eins og áður sagði tókst Norvik að lokum að tryggja sér 70% hlut í Kaupási í október árið 2003.

Ekkert nýtt að selja eignir

Þegar Norvik keypti Kaupás voru 50 verslanir undir hatti samstæðunnar. Undir Kaupási voru sömuleiðis í byrjun síðasta árs tólf verslanir undir merkjum Krónunnar, sex Kjarvals-búðir og fimm Nóatúns-verslanir auk raftækjaverslunarinnar Elko, íþróttavöruverslunarinnar Intersport og Húsgagnahöllin.

Nokkuð hefur hefur hins vegar saxast á félagið í áranna rás. Í mars í fyrra greindi Viðskiptablaðið frá því að rekstur klukkubúðanna 11-11 hafi verið seldur til Árna Péturs Jónssonar, eiganda 11-11. Jón Helgi sagði í samtali við Viðskiptablaðið ástæðuna fyrir sölunni þá að konsept verslananna passaði ekki lengur inn í Norvik.

Í september sama ár seldi svo Norvik rekstur Húsgagnahallarinnar til eigenda húsgagnaverslananna Betra baks og Dorma. Norvik hélt hins vegar húsnæðinu sem verslunin er í. Kaupás keypti Húsgagnahöllina árið 2000 og fylgi hún með þegar Norvik keypti Kaupás árið 2003.